„Feisbúkk“ og félagsleg vandræði

Ágætu foreldrar

 

Við höfum orðið vör við að mjög margir nemendur Salaskóla eru aðilar að „facebook“ netsamfélaginu. Eins og mörg ykkar þekkja býður þetta samfélag upp á ágætis samskipti af ýmsu tagi og fleira skemmtilegt. En dökku hliðarnar finnast líka og ég er hræddur um að þær komi einkum fram hjá börnum og unglingum. Í hverri einustu viku þurfum við hér í skólanum að taka á málum sem verða til í samskiptum nemenda á „facebook“. Þessi samskipti eiga nemendur eftir skóla og á kvöldin. Þetta getur t.d. verið þannig að einhver skráir eitthvað á „statusinn“ hjá sér og fær óviðurkvæmilegar athugasemdir frá einhverjum „facebook-vinum“. Komið hafa upp hörð orðaskipti, hótanir, niðurlægjandi tal, athugasemdir um útlit og geðslag og fleira í þeim dúr.

 

Þegar nemendur mæta svo í skólann morguninn eftir eru þeir í uppnámi og telja sig þurfa að gera upp sakir eða ljúka málum. Þegar svo er verður lítið um nám hjá viðkomandi. Kennarar hafa verið að taka á málum af þessu tagi og mörg þeirra lenda hjá skólastjórnendum og þarf oft mikla vinnu til að koma á sáttum og góðum friði.

 

Samskiptasamfélag af þessu tagi er oft of flókið og ögrandi fyrir þann þroska sem börn og unglingar búa yfir. Þau átta sig ekki á því að það sem þau skrifa sjá margir aðrir, það getur misskilist og það getur sært aðra og valdið miklum leiðindum. Svo eru þau líka að safna sem flestum „vinum“ og sumir sem óska eftir „vinfengi“ kunna að vera varasamir.

 

Ég vil biðja foreldra að hugleiða þessi mál og fylgjast með og skoða „facebook“ svæði barna sinna. Ábyrgð foreldra er mikil þegar kemur að netnotkun og mikilvægt er að leiðbeina börnum og unglingum hvernig á að ganga um í netsamfélagi eins og „facebook“.

 

Með kveðju – Hafsteinn Karlsson, skólastjóri

Birt í flokknum Fréttir.