Íslandsmeistaralið Salaskóla mun keppa á Norðurlandamótinu í skólaskák sem fer fram nú um helgina. Keppt verður á Tranum strand sem er bær norðarlega á Jótlandi.
Sigursveit Salaskóla, Íslandsmeistara grunnskóla frá vormisseri 2010:
1. Páll Snædal Andrason
2. Eiríkur Örn Brynjarsson
3. Guðmundur Kristinn Lee
4. Birkir Karl Sigurðsson
5. Ómar Yamak (varamaður)
Sigurlið Salaskóla myndar því landslið íslands í sveitakeppni og mun keppa fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu sem verður í haust en það verður haldið í Danmörku á Tranum strand á Jótlandi dagana 9. til 13. september 2010. Liðsstjóri í ferðinni verður Tómas Rasmus, kennari. Þess má geta að Salaskóli sigraði þessa keppni með yfirburðum í fyrra og fer nú út til að verja heiður Íslands.

Á myndinni: Páll, Eiríkur, Guðmundur, Tómas, Birkir og Gulla


Fyrstubekkingarnir okkar í Salaskóla eru afar duglegir og jákvæðir krakkar sem hefur gengið vel að byrja í skólanum. Augljóst er að þau koma vel undirbúin frá leikskólanum því það er lítið mál fyrir þau að fara eftir fyrirmælum og gera eins og þau eru beðin um. Fyrstu matartímarnir hafa gengið vel fyrir sig, það reynir á að þurfa að bíða eftir að röðin kemur að manni og fara eftir settum reglum en það vefst ekki fyrir krökkunum okkar í 1. bekk sem eru til fyrirmyndar í alla staði. 
Í morgun opnaði bókasafnið í Salaskóla við mikinn fögnuð ungra lesenda sem hugðust finna sér lesefni við hæfi. Stríður straumur var úr og í safnið fram eftir morgni og allir jafn áhugasamir að kíkja á bækur og lesefni. Lesefni er eins fjölbreytt og lesendurnir eru margir. Sumir skráðu á sig bækur um fræðilegt efni en aðrir voru meira fyrir skáldsögur og léttar lestrarbækur. Örtröð á bókasafninu fyrsta morguninn en allir sýndu staka þolinmæði meðan beðið var eftir að láta skrá bókina sína. 

