Haldið var upp á baráttudag gegn einelti, sem er í dag 8. nóvember, með því að nemendur og starfsfólk söfnuðust saman í útiþinginu (hringnum) þar sem við hittum leikskólabörn úr nærliggjandi leikskólum. Þar var sungið saman lagið Við eru vinir og fleiri lög í sama dúr. Víða í hópnum mátti sjá plaköt þar sem skráð voru varnarorð gegn einelti. Ýmis önnur verkefni voru líka í gangi inni í bekkjunum. Markmiðið með þessum degi er fyrst og fremst að vekja athygli á málefninu og benda á mikilvægi jákvæðra og uppbyggilegra samskipta.
Category Archives: Fréttir
Frá stjórnendum Salaskóla
Ágætu foreldrar
Okkur undirrituðum er kunnugt um að póstkerfi Salaskóla, mentor, hafi verið notað af foreldrum í síðustu viku til að senda fjöldapóst vegna hugmynda um fyrirhugaða stækkun íþróttahússins. Við vitum ekkert um hvers vegna kerfið okkar var notað og berum enga ábyrgð á þeim bréfum sem send voru.
Sérhvert foreldri getur sent fjöldapóst á foreldra þeirra sem eiga barn í sama bekk. Skólinn getur ekki á neinn hátt stýrt þeim aðgangi né heldur borið ábyrgð á póstsendingum í gegnum kerfið. Við viljum því enn árétta að póstkerfið á ekki að nota í öðrum tilgangi en þeim sem varðar skólastarfið og samskiptum foreldra vegna nemenda í hverjum bekk.
Salaskóli tekur enga afstöðu til þess máls sem hér um ræðir og harmar að póstkerfi skólans hafi verið nýtt með þessum hætti.
Skólastjórnendur Salaskóla
Sjöundubekkingar á Reykjum þessa vikuna
Eftirfarandi fréttir bárust frá Reykjum í dag þar sem sjöundubekkingar dvelja um vikutíma: „Reykjafararnir komu í skólabúðirnar á hádegi í gær og gekk ferðalagið vel. Krakkarnir una sér nú við leik og störf í Reykjaskóla og standa sig og skemmta sér frábærlega“.
Skólabúðirnar á Reykjum hafa mörg markmið að leiðarljósi í sínu starfi og leggja m.a. áherslu á að að örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið, auka athyglisgáfu þeirra og þroska sjálfstæði. Þetta er 25. árið sem búðirnar starfa. Við óskum sjöundubekkingunum okkar góðs gengis í starfinu á Reykjum. Heimasíða Reykjaskóla.
Kertastubbar óskast
Á hverju ári fer 5. bekkur í kertagerð í smiðjum auk tilfallandi kertagerðatíma hjá öðrum árgöngum. En til þess að geta endurnýtt kertaafganga, þurfum við hráefni. Við getum notað ÖLL kerti (nema sprittkerti) , bæði heil og hálf og smástubba, líka vaxið sem hefur lekið niður á diskinn og kerti í glösum! Endilega sendið okkur kertabúta. Eins og staðan er núna þá vantar okkur mest hvít kerti, en við þiggjum samt alla liti. Við flokkum þá og bræðum niður, skerum í litla kubba og gerum svo kubbakerti, þar sem hvítu vaxi er svo hellt yfir kubbana. Kertin sem við gerum eru ýmist sett í mót eða beint í glerkrukkur, svo við söfnum einnig litlum glerkrukkum, til dæmis undan sultu eða barnamat.
Kveðja Steinunn og Agnes smiðjukennarar.
Allir glaðir á fjölgreindaleikum
Seinni dagur fjölgreindaleikanna var í dag. Krakkarnir kepptust við að leysa hinar ýmsu þrautir sem fyrir þá voru lagðar og gaman var að sjá hversu samvinnan var góð. Þegar krakkarnir voru spurðir hver væri skemmtilegasta stöðin á leikunum fannst þeim erfitt að komast að ákveðinni niðurstöðu. Sumir byrjuðu kannski á að segja dansinn, en bættu þá við að smíðin væri líka skemmtileg, og… bandýið og … fuglastöðin og ..kapplakubbarnir – og þannig var haldið áfram að telja upp. Sumir höfðu þó vaðið fyrir neðan sig og svöruðu að ALLT á fjölgreindaleikunum væri skemmtilegt. Einfalt og gott svar. Það er mál manna að aldrei hafi tekist eins vel til með leikana og núna. Krakkarnir voru einstaklega duglegir og vinnusamir, hópmeðlimir unnu mjög vel saman, vel gekk að fara á milli stöðva og fyrirliðarnir voru til fyrirmyndar.
Það er greinilegt að þrautalausnir krefjast orku því krakkarnir tóku vel til matar síns í hádeginu og gerðu pylsunum góð skil. Síðan var boðið upp á ís í eftirrétt til hátíðabrigða. Bros lék um varir nemenda þegar þau skunduðu heim úr skólanum í dag. Á morgun, föstudaginn 4. okt., er samstarfsdagur kennara í Kópavogi og því frí í skólanum. Krakkarnir eiga að mæta aftur í skólann á mánudaginn skv. stundaskrá.
Lesið meira um fjölgreindaleikana.
Myndir frá seinni degi fjölgreindaleika.
Fjölgreindirnar á dagskrá í 11. skipti
Þegar farið var að grennslast nánar fyrir um þessi furðudýr og skrítnu mannverur (sjá frétt hér á undan) kom í ljós að í dag er fyrri dagur fjölgreindaleika Salaskóla. Þá er öllum krökkum í skólanum skipt niður í hópa, u.þ.b. 12 krakkar í hóp, eldri sem yngri saman í hóp ásamt tveimur fyrirliðum er eiga að sjá um að allt fari vel fram. Hópurinn fer á milli 40 stöðva þar sem reynir á mismunandi hæfni hópmeðlima og hver og einn í hópnum leggur sitt af mörkum allt eftir hæfileikum sínum og getu. Sem dæmi má nefna að sumir eru betri en aðrir í að greina bragð, að þekkja fána, saga út, sparka stígvéli og hitta bolta í körfu. Þau yngri eru oft betri en þau eldri í einhverju – og öfugt. Á hverri stöð er stöðvarstjóri sem útskýrir í hverju verkefnið felst. Stöðvarstjórinn er ávallt kennari/starfsmaður sem er klæddur í grímubúning eða furðuföt. Þá er málið upplýst sem betur fer og kennararnir voru á sínum stað í morgun en voru bara óþekkjanlegir.
Fjölgreindaleikarnir, í öllu sínu veldi, eru sem sagt haldnir í Salaskóla í dag í 11. skipti, nemendum og starfsfólki til mikillar ánægju. Þar er eitt af aðalmarkmiðunum að hver og einn nemandi fái að njóta sín á sínum eigin forsendum. Leikarnir gengu afar vel í dag og við hlökkum til seinni hluta leikanna á morgun.
Sjá myndir frá morgninum og af skrítnum stöðvarstjórum.