
Nemendur í 7. og 8. bekk hafa verið í góðgerðarþema að undanförnu. Fulltrúi frá Rauða krossinum kom í heimsókn og fræddi okkur um starfsemina. Þemað endaði á kaffihúsi þar sem foreldrar og aðstandendur gátu keypt vöfflur, kaffi, djús, heimgerð jólakort og origami túlípana. Það söfnuðust rúmlega 70.000 kr. Helga Halldórsdóttir kemur frá Rauða krossinum á fimmtudaginn til að taka við peningunum sem söfnuðust á kaffihúsinu.
Category Archives: Fréttir
Níundubekkingar á Laugum

Undanfarin ár hafa 9.bekkingar í skólanum sótt Lauga í Sælingsdal heim sem Ungmennafélag Íslands rekur. Hvert námskeið stendur í viku og er farið á mánudagsmorgni og komið heim á föstudagseftirmiðdegi. Dagskrá daganna samanstendur af skipulögðum viðfangsefnum tengdum lífsleikni, lifandi sögu, íþróttum og útivist og frjálsum tíma síðdegis ásamt kvöldvökum. Aðstaða er öll hin glæsilegasta.
Nemendur okkar í kjóum og smyrlum fóru til dvalar á Lauga á mánudaginn og með í för eru kennararnir Rúnar Þór Bjarnason og Rannveig Kristjánsdóttir. Af þeim er allt gott að frétta, krakkarnir eru hressir og kátir og hafa í nógu að snúast.
Við erum vinir ….

Haldið var upp á baráttudag gegn einelti, sem er í dag 8. nóvember, með því að nemendur og starfsfólk söfnuðust saman í útiþinginu (hringnum) þar sem við hittum leikskólabörn úr nærliggjandi leikskólum. Þar var sungið saman lagið Við eru vinir og fleiri lög í sama dúr. Víða í hópnum mátti sjá plaköt þar sem skráð voru varnarorð gegn einelti. Ýmis önnur verkefni voru líka í gangi inni í bekkjunum. Markmiðið með þessum degi er fyrst og fremst að vekja athygli á málefninu og benda á mikilvægi jákvæðra og uppbyggilegra samskipta.
Frá stjórnendum Salaskóla
Ágætu foreldrar
Okkur undirrituðum er kunnugt um að póstkerfi Salaskóla, mentor, hafi verið notað af foreldrum í síðustu viku til að senda fjöldapóst vegna hugmynda um fyrirhugaða stækkun íþróttahússins. Við vitum ekkert um hvers vegna kerfið okkar var notað og berum enga ábyrgð á þeim bréfum sem send voru.
Sérhvert foreldri getur sent fjöldapóst á foreldra þeirra sem eiga barn í sama bekk. Skólinn getur ekki á neinn hátt stýrt þeim aðgangi né heldur borið ábyrgð á póstsendingum í gegnum kerfið. Við viljum því enn árétta að póstkerfið á ekki að nota í öðrum tilgangi en þeim sem varðar skólastarfið og samskiptum foreldra vegna nemenda í hverjum bekk.
Salaskóli tekur enga afstöðu til þess máls sem hér um ræðir og harmar að póstkerfi skólans hafi verið nýtt með þessum hætti.
Skólastjórnendur Salaskóla
Sjöundubekkingar á Reykjum þessa vikuna

Eftirfarandi fréttir bárust frá Reykjum í dag þar sem sjöundubekkingar dvelja um vikutíma: „Reykjafararnir komu í skólabúðirnar á hádegi í gær og gekk ferðalagið vel. Krakkarnir una sér nú við leik og störf í Reykjaskóla og standa sig og skemmta sér frábærlega“.
Skólabúðirnar á Reykjum hafa mörg markmið að leiðarljósi í sínu starfi og leggja m.a. áherslu á að að örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið, auka athyglisgáfu þeirra og þroska sjálfstæði. Þetta er 25. árið sem búðirnar starfa. Við óskum sjöundubekkingunum okkar góðs gengis í starfinu á Reykjum. Heimasíða Reykjaskóla.
Kertastubbar óskast

Á hverju ári fer 5. bekkur í kertagerð í smiðjum auk tilfallandi kertagerðatíma hjá öðrum árgöngum. En til þess að geta endurnýtt kertaafganga, þurfum við hráefni. Við getum notað ÖLL kerti (nema sprittkerti) , bæði heil og hálf og smástubba, líka vaxið sem hefur lekið niður á diskinn og kerti í glösum! Endilega sendið okkur kertabúta. Eins og staðan er núna þá vantar okkur mest hvít kerti, en við þiggjum samt alla liti. Við flokkum þá og bræðum niður, skerum í litla kubba og gerum svo kubbakerti, þar sem hvítu vaxi er svo hellt yfir kubbana. Kertin sem við gerum eru ýmist sett í mót eða beint í glerkrukkur, svo við söfnum einnig litlum glerkrukkum, til dæmis undan sultu eða barnamat.
Kveðja Steinunn og Agnes smiðjukennarar.






