Category Archives: Fréttir
Bókagjöf frá foreldrafélagi Salaskóla!
Undir stjórn Guðnýjar Birnu, bókasafns- og upplýsingarfræðings Salaskóla, er safnið orðið mjög aðlaðandi og aðgengilegt og nú búið fullt af nýju lesefni!




Takk fyrir stuðninginn kæra samfélag

Hlaupið okkar fékk mikla athygli og samhugurinn sem við fundum frá ykkur öllum; foreldrum, nágrönnum og fjölmörgum öðrum velunnurum skólans var áþreifanlegur. Það er skemmst frá því að segja að með ykkar stuðningi söfnuðum við rétt tæplega einni og hálfri milljón króna sem við afhentum sl. mánudag. Afhendingarathöfnin fór fram í húsnæði KPMG sem heldur utan um minningarsjóðinn, að viðstöddum forseta Íslands Höllu Tómasdóttur, sem er verndari sjóðsins. Við erum mjög stolt af þeim fulltrúum Salaskóla sem voru við afhendinguna, íþróttakennurunum okkar þeim Auði, Ísaki og Gísla og þremur nemendum, þeim Magnúsi Inga 10. bekk, Maríu 5. bekk og Kimaya 2. bekk.
Með fylgja nokkrar myndir frá afhendingunni







Veruleikinn sem börnin okkar búa við – Hvernig geta foreldrar brugðist við og stutt við og leiðbeint börnum sínum?
Endurskoðun skilmála vegna afnota af spjaldtölvu 2024
Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu hafa verið uppfærðir. Nálgast má skilmálana í heild sinni hér: https://spjaldtolvur.kopavogur.is/skilmalar/
Eftirfarandi breytingar voru gerðar:
2. grein breytist ekki efnislega en síðasta setningin hefur verið færð framar.
3. grein breytist þar sem orðið “Lightspeed” hefur verið tekið út og í staðinn sett orðið “umsýslukerfi”.
4. grein breytist. Var áður “Til þess að hægt sé að nota spjaldtölvuna er nauðsynlegt að nemandi eigi Apple-auðkenni (Apple ID) og sér Kópavogsbær um að stofna þann aðgang, auk netfangs sem tengist Apple-auðkenninu. Umsjónarkennara og foreldrum/forráðamönnum eru afhentar aðgangsupplýsingar (netfang og lykilorð) Apple-auðkennis. Auk þess hefur tæknistjóri og deildarstjórar í upplýsingatækni í hverjum skóla aðgang að innskráningarupplýsingum nemenda”.
en verður nú:
“Kópavogsbær sér um að stofna þá aðganga sem nemandi þarf til að nota í námi. Tæknistjóri og deildarstjórar í upplýsingatækni í hverjum skóla hafa aðgang að innskráningarupplýsingum nemenda”.
6. grein Fyrsta setning hefur verið umorðuð: “Nemanda í 5.-10. bekk er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi. Nemandi skal þá hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna”
en verður nú:
“Nemanda er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi í 5. -10. bekk en skal hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna. Nemandi ber ábyrgð á sínu hleðslutæki og snúru og er mælst til þess að það sé geymt heima”.
Grein 10. Breytist. Var áður “Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (öpp) sem ætluð eru til náms vinnu nemenda. Nemendur í 1. – 7. bekk hafa ekki aðgang að App Store. Öll öpp í spjaldtölvum nemenda eru skráð í Lightspeed sem er miðlægt kerfi í umsjón deildarstjóra skólans í upplýsingatækni”
en verður nú:
“ Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (öpp) sem ætlaður er til náms. Nemendur hafa ekki aðgang að App Store. Öllum öppum í spjaldtölvum nemenda er dreift með umsýslukerfi bæjarins sem er miðlægt kerfi í umsjón UT deildar. Þegar spjaldtölvunni er skilað í lok skólaárs ber nemandi ábyrgð á að vista persónuleg gögn annars staðar, þar sem spjaldtölvan getur verið uppfærð og enduruppsett áður en hún er afhent á næsta skólaári og eyðast þá öll gögn af spjaldtölvunni”.
Í grein 11 bætist við “Nemendur og foreldrar/forsjáraðilar bera ekki fjárhagslega ábyrgð þótt tækið glatist, skemmist eða verði með öðrum hætti ónothæft. Ef um vísvitandi skemmdarverk, verulega vanrækslu er að ræða eða ef námstæki er ekki skilað ber foreldrum/forsjáraðilum að bæta skólanum tækið fyrir hönd nemanda”.
Að síðustu breytist 14. grein sem hér segir: “Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta breytt aðgangi sínum á Apple og iCloud til að varðveita persónuleg gögn og gert hann að persónulegum aðgangi til að varðveita þau. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni”.
en verður nú:
“Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta flutt persónuleg gögn af skólaaðgangi sínum yfir á persónulegan aðgang. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni.
Góðgerðarhlaup Salaskóla
Föstudaginn 13. september munu nemendur Salaskóla taka þátt í árlegu Ólympíuhlaupi ÍSÍ á skólatíma. Eins og í fyrra, þá skilgreinum við hlaupið einnig sem „Góðgerðahlaup Salaskóla“. Að þessu sinni langar okkur að styrkja nýstofnaðan minningarsjóð Bryndísar Klöru Birgisdóttur, en hún var nemandi í Salaskóla og útskrifaðist frá okkur vorið 2023.
Í minningu Bryndísar Klöru ætlum við einnig að klæðast bleiku þennan dag en bleikur var hennar uppáhalds litur.
Íþróttakennararnir okkar skipuleggja hlaupið og eru vegalengdir mismunandi eftir aldri.
Við leitum til foreldra og vina og vandamanna skólasamfélagsins okkar að styrkja okkur við að láta gott af okkur leiða og heiðra um leið minnngu Bryndísar Klöru.
Minningarsjóður Bryndísar Klöru er í umsjón KPMG og forseti Íslands, Halla Tómasdóttr, er verndari sjóðsins. Minningarsjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að þær hörmungar sem leiddu til fráfalls Bryndísar Klöru endurtaki sig.
Í hlaupinu óskum við eftir stuðningi sem að lágmarki er ein króna fyrir hvern nemanda skólans, eða að lágmarki 530 kr. Í fyrra söfnuðum við kr. 192,500- sem voru afhentar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. Margir völdu að styrkja nemendahópinn um 530 kr, en aðrir völdu hærri styrkupphæð að eigin vali.
Í nafni Salaskóla langar okkur að styðja myndarlega við nýstofnaðan minningarsjóð og leggja okkar af mörkum til að markmið hans náist. Við hvetjum ykkur til að taka þátt, styðja duglega hlaupakrakka og hjálpa okkur í skólanum að heiðra minningu Bryndísar Klöru.
Endilega takið þátt og hjálpið okkur að hlaupa til góðs!
Framlög má leggja inn á reikning Salaskóla, 0536-14-750900, kt. 670601-3070.
Í nafni skólasamfélags Salaskóla munum við svo koma einni heildarupphæð til minningarsjóðsins strax í næstu viku.
Gulur dagur þriðjudag 10.sept
Á morgun, þriðjudag 10. september, ætlum við í Salaskóla að hafa GULAN dag, til að sýna stuðning í gulum september vegna vitundarvakningar um geðheilbrigði, líðan og sjálfsvígsforvarnir.
Það málefni, eins og svo mörg önnur, tengjast skólasamfélaginu með beinum hætti og mikilvægt að við sýnum hvert öðru stuðning, skilning og hlýju.
Hér eiga gildi Salaskóla vel við – Vinátta, Virðing, Samstarf.
Nemendur og starfsfólk munu klæðast gulu eða bera eitthvað gult á morgun!
Velkomin í Salaskóla!
Velkomin í Salaskóla!
Skólasetning verður föstudaginn 23. ágúst.
Nemendur í 2.-4. bekk mæta kl. 9:00, nemendur í 5.-7. bekk mæta kl. 10:00 og nemendur í 8.-10. bekk mæta kl. 11:00.
Skólasetningin verður í opnu rými við aðalinngang skólans, nálægt stiganum. Foreldrar eru hjartanlega velkomnir með börnum sínum. Eftir stutta skólasetningarathöfn fara nemendur í kennslustofur þar sem umsjónarkennarar bjóða þá velkomna og fara stuttlega yfir skólabyrjun og helstu áherslur.
Nemendur í 1. bekk mæta ekki til hefðbundinnar skólasetningar en umsjónarkennarar þeirra munu boða hvern nemanda til viðtals ásamt foreldrum en viðtölin fara fram dagana 22. og 23. ágúst.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrám mánudaginn 26. ágúst kl. 8:20.
Foreldrar eru minntir á að skrá börn sín í skólamötuneyti en skráning er nauðsynleg þó skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar, skráning á þessari slóð: Vala skólamatur – Umsóknarvefur
Forstöðukona frístundar Kristrún Sveinbjörnsdóttir veitir allar upplýsingar er varða frístund, kristrunsv@kopskolar.is
Við hlökkum til nýs skólaárs!
200.000 krónur til Barnaspítala Hringsins
Leikfélag Salaskóla og Fönix, skipað nemendum úr unglingadeild, afhentu á dögunum ávísun að upphæð 200.000 krónur til Barnaspítala Hringsins, en peningurinn er ágóði af sölu á leiksýningu félagsins. Unglingarnir settu upp verkið ,,Stefán rís“ byggt á bókinni ,,Unglingurinn“ eftir þá Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson.
Fyrrum nemendur Salaskóla, þeir Aron Ísak Jakobsson og Matthías Davíð Matthíasson, komu á fund skólastjóra eftir áramót og lögðu til að vera með leiklistarklúbb fyrir nemendur í unglingadeild, þar sem þeirra bestu minningar úr skólanum voru tengdar leiklistastarfi. Stjórnendur úr félagsmiðstöðinni Fönix bættust svo í hópinn ásamt kennara úr unglingadeild. Áheyrnaprufur voru svo snemma á önninni og fljótt var búið að skipa glæsilegan leikhóp sem lagði allt sitt í æfingar og skipulag svo að úr varð glæsileg leiksýning. Uppselt var á sýningar hópsins og var mikil ánægja meðal áhorfenda enda sýningin full af húmor og gleði, sem og raunum þess að vera unglingur. Snemma var ákveðið að gefa ágóðann til góðgerðarmála og var hópurinn sammála um hvert styrkurinn skyldi renna. Úr varð að Hrönn Sigríður Steinsdóttir kom og tók við styrknum fyrir hönd Barnaspítala Hringsins. Unglingarnir mega vera stolt af þessum frábæra árangri og vonumst við til þess að leiklistarverkefnið haldi áfram á næsta skólaári.