stodvar

Allt fer vel af stað á fyrsta degi fjölgreindaleika

stodvar
Já, annar af tveimur dögum fjölgreindaleika er runninn upp.   Á fjölgreindaleikum er krökkunum í Salaskóla skipt upp í 40 lið – en í hverju þeirra eru 10 krakkar, einn úr hverjum árgangi. Elstu nemendurnir eru fyrirliðar og eiga að gæta þess að allt fari vel fram innan liðsins. Liðin fara á milli stöðva þar sem er stöðvarstjóri úr röðum starfsfólks skólans. Stöðvarstjórar eru klæddir í grímubúning sem útskýrir þá miklu ringulreið sem varð í morgun þegar ýmis furðudýr og skringilegt fólk dreif að skólanum.

Afar vel gekk að skipa krökkunum niður í  liðin sín og hófust síðan leikarnir stundvíslega klukkan 9. Liðin safna stigum á hverri stöð með góðum árangri sínum og góðri liðsheild. Hægt er að fá aukastig m.a. fyrir góða stjórnun liðsins. Stöðvarnar sem eru um 50 talsins reyna á hinar ýmsu greindir okkar. Nokkrar nýjar stöðvar eru í boði að þessu sinni t.d. stígvélaspark, uppþvottur, landkönnuðurinn, nafnarapp o.fl.

stgvlaspark
Nokkrir krakkar sem Stína Lína hjá GREINDARLEGUM FRÉTTUM hitti á stígvélasparkstöðinni sögðu að það væri ótrúlega erfitt að fá stig fyrir stígvélaspark. Það mætti bara sparka innan ákveðins svæðis og það væri þrautinni þyngri. Þau voru samt bjartsýn á að ná inn fullt af stigum á þeirri stöð. Nokkrir krakkar á limbóstöðinni voru brosmild og sögðu létt í bragði að þetta væri skemmtilegur dagur og það væri „svo rosalega gaman að sjá hvað kennararnir væru skrýtnir..“
  

galdranorn_og_raudhetta

Svartur svanur, gangandi jarðarber …

galdranorn_og_raudhettaUpp úr klukkan 8 í morgun, 6. október, tóku vegfarendur eftir því að ekki var allt eins og venjulega við Salaskóla. Margir vissu ekki hvað á sig stóð veðrið þegar svartur svanur kom keyrandi á bíl og lagði við skólann, flögraði út og tók undurfögur ballettspor að skólanum. Tígri mætti stuttu síðar, frár á fæti, og úr einni bifreiðinni steig síðan Rauðhetta með körfuna sína. Þeim mun undarlegra varð þetta þegar á svæðið mættu líka strokufangi , egypsk kona, Karíus og Baktus, galdranorn, gangandi jarðarber og þannig mætti lengi telja.  Fólk spurði sig hvað er um að vera í Salaskóla í dag?

stna_lna_greindarleg2

GREINDARLEGAR FRÉTTIR af fjölgreindaleikum

stna_lna_greindarleg2Góðan daginn!
Velkomin á  Fréttamiðilinn GREINDARLEGAR FRÉTTIR. Aðalmarkmið fréttamiðilsins er að flytja ykkur fréttir af hinum stórkostlegu fjölgreindaleikum sem hófust í morgun, fimmtudaginn 6. október, í SALAKÓLA. Stína – Lína, fréttasnápurinn alkunni, er á sveimi, kíkir í öll horn, hlustar eftir öllu og lætur ekkert fram hjá sér fara. Hún snapar eftir fréttum alls staðar.  Hér á síðunni er hægt að kynna sér það sem fram fer.

sokkar

Stakir sokkar hafa framhaldslíf

sokkar

 

Nú söfnum við stökum litríkum sokkum í Textílmenntina í Salaskóla. Við ætlum okkur að búa til úr þeim allskyns fígúrur og furðudýr.   Við getum líka notað litríkar sokkabuxur og það er í fínu lagi að þær séu götóttar.   Tásusokkar eru sérstaklega velkomnir og fingravettlingar.  Við þiggjum sokkana með glöðu geði og það má skila þeim í sokkasafnkassann okkar sem er fyrir utan textílstofuna.

Bestu kveðjur Sokkaskrímslin í textílstofunni. 

kisa_001

Kisa í heimsókn

kisa_001

Himbrimar og lómar fengu skemmtilega heimsókn inn í skólastofuna sína í gær þegar lítill kettlingur skaust inn um gluggann. Eins og nærri má geta var ekki kennsluhæft fyrstu mínúturnar en svo komst ró á mannskapinn og kisu litlu virtist líka lífið vel í fanginu á krökkunum eftir að hafa fengið duglega að borða. Kisa verður eitthvað áfram í vörslu á vegum skólans og ef einhver hefur upplýsingar um hvaðan þessi litla kisulóra kemur getur sá hinn sami haft samband við Jóhönnu P. kennara eða skrifstofuna.

Hilmir_HIldur

Salaskóli í keppni þeirra bestu á Norðurlöndum.

Helgina 26 til 28 ágúst fór fram Norðurlandamót grunnskóla í Skák í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Til leiks mættu lið frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi ásamt tveimur efstu liðunum frá Íslandsmeistaramótinu sem var haldið í apríl sl. Færeyingar mættu ekki til leiks og sendi Ísland því tvö lið, Lið 1 frá Íslandi frá Rimaskóla og ríkjandi Íslandsmeistarar og Lið 2 frá Íslandi frá Salaskóla, sem vann silfur á síðasta Íslandsmóti. Fyrirfram leit styrkur okkar manna skv. skráðum skákstigum þannig út að við værum með minnst reynda liðið ,enda aldur okkar keppenda frá 10 ára upp í 16 ára. Við kepptum 5 viðureignir oftast nær við sveitir með skráðan styrk langt fyrir ofan okkar keppendur. Salaskóli sigraði tvö af þessum liðum eða Danmerkurmeistarana og finnska liðið og lentum við í 5 sæti aðeins 1 vinning frá silfurliðinu.Hilmir_HIldur

Bestum árangri okkar nemenda náði Hildur Berglind Jóhannsdóttir með 75%  vinningshlutfall, en hún er aðeins í 7. bekk  og síðan yngsti keppandinn á mótinu eða Hilmir Freyr Heimisson sem er nýorðinn 10 ára með 62,5%  vinningshlutfall. Sjá nánar hér um úrslit í einstaka skákum.

Á síðustu árum hefur Salaskóli unnið glæsta sigra á Norðurlandamótum.
2009  Norðurlandameistarar.
2010  Silfur á Norðurlandamóti
2011  5 sæti á Norðurlandamótii

Við óskum skákliði Salaskóla innilega til hamingju með glæsilegan árangur – en meðlimir liðsins eru taldir upp hér neðar á síðunni.

 NM_2011_-Salaskolalii_02

heimskn_fr_lesund_006

Gestir frá Noregi

heimskn_fr_lesund_006
Í morgun komu góðir gestir fra Noregi í heimsókn hingað í skólann. Hér voru á ferð 21 nemandi frá Álasundi ásamt nokkrum kennurum og foreldrum. Þessi hópur hitti tíundubekkingana okkar á sal, fræddi þá um skólann sinn og heimabæ. Einnig spiluðu þau undurfagra tónlist fyrir okkur m.a. eftir norska tónskáldið Edward Grieg. Gestgjafarnir löbbuðu síðan með gestunum um skólann og sýndu þeim aðstöðuna og nokkrir náðu að kíkja á íþróttahúsið líka. Í kvöld bjóða Norðmennirnir svo 10. bekk í grill hérna í skólanum og verður félagsmiðstöðin opin svo hópurinn fái tækifæri til þess að kynnast enn betur. 

skak2.jpg

Skáklið Salaskóla á Norðurlandamóti

skak2.jpg
Skáklið Salaskóla keppir á Norðurlandamóti grunnskóla í skák 26. – 28. ágúst næstkomandi. Keppt er í húsi Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12. Í liði Salaskóla eru Guðmundur Kristinn Lee MR, Birkir Karl Sigurðsson 10b., Hilmir Freyr Heimisson 5b., Jón Smári Ólafsson 7b., Hildur Berglind Jóhannsdóttir 7b. og Eyþór Trausti Jóhannsson 9b. Áhorfendur eru velkomnir. Sjá nánar hér

skolasafn2

Gaman á skólasafni

skolasafn2
Þessa dagana eru fyrstubekkingar smátt og smátt að læra að rata um skólann sinn. Í dag komu þeir á skólasafnið í fyrsta sinn með umsjónarkennaranum sínum og völdu sér bók til að lesa. Þeir lærðu hvernig bók er fengin að láni og hvert á að skila henni að lestri loknum. Þetta er heilmikið að muna en þau voru ekki bangin og býsna fljót að tileinka sér þetta allt. Síðan gengu þau aftur niður í stofuna sína með bók undir hönd. Næst þegar þau þurfa að fá bók lánaða geta þau áreiðanlega ratað „alveg ein“ á safnið.