Síðastliðna fjóra föstudaga hafa ungmenni farið í verkfall á milli klukkan 12-13 til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda og atvinnulífs í baráttunni gegn loftslagsbreytingunum. Verkfallið er hluti af alþjóðlegri öldu barna, ungs fólks og námsmanna sem hafa farið í loftslagsverkföll síðustu mánuði, en síðastliðinn föstudag sóttu um 2.5 milljónir verkfallið í yfir 100 löndum um allan heim.
Þetta er mikilvægt framtak og okkur ber að styðja þetta. Þarna er ungt fólk að stíga fram…, eins og hin sænska Greta Thunberg, og krefjast þess að yfirvöld vakni og grípi til raunhæfra aðgerða í loftslagsmálum. Nemendur eiga að vera gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í lýðræðissamfélagi skv. aðalnámskrá og ef þetta er svo sannarlega varða á þeirri braut.
Nemendur sem taka þátt í þessu eru að berjast fyrir tryggri og betri framtíð og sýna því samfélagslega meðvitund og ábyrgð. Þau gera sér grein fyrir alvarleika málsins og eiga hrós skilið.
Salaskóli styður við baráttu ungmenna fyrir betri framtíð og vill stuðla að þátttöku nemenda skólans í þessum aðgerðum með því að gefa þeim nemendum sem taka þátt leyfi frá kennslu meðan á þeim stendur. Þar sem nemendur eru á ábyrgð skólans á skólatíma, fá þeir fjarvist þegar þeir mæta ekki í kennslustundir. Við biðjum því foreldra að láta okkur vita og óska eftir leyfi fyrir börn sín ef þau hafa hug á því að fara á Austurvöll og mótmæla.