Árshátíð nemenda í 8. – 10. bekk var haldin miðvikudaginn 9. apríl. Þema hátíðarinnar var hjarta, spaði, tígull og lauf og voru glæsilegar skreytingar hvert sem litið var. Mikil stemning var á hátíðinni og skemmti fólk sér hið besta. Nemendur mættu í sínu fínasta pússi vel snyrtir og margir afar brúnir og sællegir. Þeir voru sjálfum sér og skólanum til sóma með prúðmannlegri framkomu sinni.
Siggi kokkur ásamt starfsfólki sínu í eldhúsi sá um stórglæsilegan veislumat sem mjög góður rómur var gerður að. Starfsfólk þjónaði til borðs og hafði gaman að.
Kennarar tróðu upp með eitt atriði sem var spurningakeppni milli kennara og nemenda. Skemmtu allir sér vel yfir þessari uppákomu sem endaði með sigri nemenda. Að lokum voru kynnt úrslit kosninga sem nemendur stóðu fyrir.
Að loknu borðhaldi og skemmtiatriðum voru þeyttar skífur og héldu DJ-ar uppi dansstuði þar til hátíðinni lauk.
Margir nemendur lögðu á sig mikla vinnu til að árshátíðin gæti orðið sem glæsilegust og getum við verið þakklát og ánægð með þetta dugmikla unga fólk.