Tveir nemendur Salaskóla á norrænni ráðstefnu um sjálfbæran lífsstíl

Miðvikudaginn 10. apríl verður haldin í Reykjavík norræn ungmennaráðstefna um sjálfbæran lífsstíl. Þar verður fjallað um ábyrga neyslu og er ráðstefnan er haldin í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Tilgangurinn er að leiða saman ungt fólk, valdhafa og atvinnurekendur frá öllum norrænu löndunum og ræða lausnir sem leiða til ábyrgari lífsstíl. Allir norrænu umhverfisráðherrarnir taka þátt, en Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra mun setja ráðstefnuna og Katrín Jakobsdóttir flytur lokaávarp.
Sænski umhverfisverndarsinninn Greta Thunberg ávarpar. Þar sem Thunberg flýgur ekki, sá hún sér ekki fært að koma til Íslands, heldur ávarpar ráðstefnuna á myndbandi.
Þar sem Salaskóli var nýlega viðurkenndur sem UNESCO skóli var skólanum boðið að senda tvo fulltrúa á ráðstefnuna. Hrefna Karen Pétursdóttir og Ingibjörg Finnbjörnsdóttir, báðar í 10. bekk verða fulltrúar skólans á ráðstefnunni.

 

Birt í flokknum Fréttir.