Takið vel á móti dósasöfnurum

Lególiðið okkar varð Íslandsmeistari síðasta haust. Liðið er því á leið á Evrópumót grunnskóla í Legó í Istanbúl 21. – 25. apríl. nk. Liðið þarf að safna fyrir ferðinni og mun gera það með ýmsum hætti. Nú næstu daga ætla krakkarnir að ganga í hús í hverfinu og safna dósum og biðjum við ykkur um að taka vel á móti þeim og leggja þessu verkefni lið með. Krakkarnir verða sérstaklega merktir.

Ef einhver hefur aðgang að fyrirtæki sem er tilbúið til að leggja fram styrk og fá í staðinn nafns síns getið eða lógó, þá þiggjum við það líka, þarf ekki að vera meira en 5 þús kr. en allt er þegið. Hafið samband við skólastjóra ef um slíkt er að ræða.

LEGÓ keppnin er árleg keppni milli grunnskóla á Íslandi í tækniúrlausnum og eru LEGÓ kubbar notaðir í því skyni. Reynir mjög á tæknilega úrlausnir, frumkvöðla hugsun, skapandi nálgun, forritun, rannsóknarvinnu að ógleymdri samvinnu nemenda. Salaskóli hefur verið framarlega í þessum fræðum á undanförnum árum.

Skapandi hugsun er grundvöllur nýsköpunar í atvinnulífi. Mikilvægt er hún fái aukið vægi í námi barna og unglinga. Með þátttöku í Evrópukeppni af þessari tagi verður hægt að vekja athygli á þessu mikilvæga starfi og hrífa fleiri með, til heilla fyrir íslenskt atvinnulíf.

Lið Salaskóla er einstaklega öflugt núna og vonir standa til að ná góðu gengi á mótinu. Það myndi væntanlega vekja jákvæða athygli á landi og þjóð úti í henni Evrópu.

Kostnaður við ferðina er nokkur og felst að mestu í að komast til og frá keppnisstað auk gistingar. Nemendur verða sjálfir að kosta ferðina þar sem skólinn sem slíkur hefur ekki fjármuni til að standa straum af ferðinni. Því leitum við til ykkar um aðstoð við fjáröflun, þar sem margt smátt gerir eitt stórt.

Birt í flokknum Fréttir.