Niðurstöður ytra mats á Salaskóla liggja fyrir

Skýrsla um ytra mat á Salaskóla sem framkvæmt var í haust var að koma í hús. Hún er komin hér á heimasíðuna. Er undir Skólinn – mat á skólastarfi og nokkuð neðarlega á þeirri síðu. Í bréfi sem Námsmatsstofnun sendi foreldrum í gær voru helstu niðurstöður tíundaðar. Þar segir: 

„Eins og ykkur er kunnugt var starf við skólann metið nýlega með ytra mati. Matið unnu matsmenn á vegum Námsmatsstofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Matið er fyrst og fremst til að styðja skóla við að auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum. Tilgangur matsins er einnig að afla upplýsinga um skólastarf, árangur þess og þróun fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemendur. Matið er til að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla.

Samantekt niðurstaðna

 Ytra mat á Salaskóla í Kópavogi fór fram á haustönn 2014. Teknir voru fyrir fjórir matsþættir, þar af voru þrír fyrirfram ákveðnir, en fjórði matsþátturinn var ákveðinn af sveitarfélagi og skóla. Þættirnir sem lagt var mat á voru stjórnun, nám og kennsla, innra mat og að ósk skóla og sveitarfélags var fjórði þátturinn nám nemenda með sérþarfir.

Stjórnun

Í starfi sínu leggur skólastjóri Salaskóla fyrst og fremst áherslu á nemandann og einnig starfsfólkið. Stefna Salaskóla miðar að því að gera Salaskóla að framsæknum skóla sem byggir starf sitt og þróun á reynslu og innlendum sem erlendum rannsóknum.Í stefnu skólans segir að hagsmunir nemenda skuli ávallt settir í fyrsta sæti og allt starfið miði að því að gera nemendur að góðum og nýtum þegnum þessa lands, óhræddum við að glíma við öll þau nýju verkefni sem þeim munu mæta á lífsleiðinni.

Stjórnendateymið vinnur náið saman og miðlar upplýsingum sín á milli. Skólasamfélagið hefur mótað jákvæðan og uppbyggjandi skólabrag með velferð nemenda að leiðarljósi og verklagsreglur og við­brögð við einelti eru skilvirk. Skóladagur nemenda er heildstæður og fjölbreyttar valgreinar í boði fyrir unglingastigið.

Faglegt samstarf kennara um kennslu fer fram í faghópum, á aldursstigum og/eða árgöngum. Þá eru reglulegir kennarafundir en fjölga þarf formlegum starfsmannafundum.

Setja þarf skólanámskrá og starfsáætlun fram á þann hátt sem kveðið er á um í 12. kafla aðalnámskrár. Í starfsáætlun eru taldir upp fulltrúar í skólaráði en þar vantar tvo fulltrúa nemenda. Fulltrúar í skóla­ráði eru kosnir lýðræðislegri kosningu nema fulltrúar nemenda.

Nám og kennsla

Í Salaskóla fá nemendur markvissa þjálfun í fjölbreyttum námsaðferðum og nýta mismunandi leiðir til að afla sér þekkingar. Allir nemendur taka virkan þátt í námi og starfi skólans. Kennarar sýna góða fagþekkingu og skipuleggja kennslu með tilliti til námsmarkmiða og þarfa nemenda. Nemendur vinna að heildstæðum og samþættum verkefnum og námsmat er fjölbreytt. Nemendur á unglingastigi hafa val um námsgreinar í um fimmtungi námstímans og þeim er kennt að setja sér markmið í námi. Mark­visst er fylgst með námi og framförum allra nemenda og unnið er sérstaklega út frá styrkleikum hvers og eins.

Námsvísar/bekkjarnámskrár þurfa að vera aðgengileg á heimasíðu. Efla þarf umræður, skoðanaskipti og gagnrýna hugsun nemenda og huga að markvissri samvinnu í námi. Efla þarf nemendafélag innan skólans og æskilegt að nemendur bæði á mið- og unglingastigi taki þar þátt. Gera þarf nemendum ljós markmið námseininga í heild sinni.

Innra mat

Í Salaskóla er unnið eftir matsáætlun til þriggja ára í senn. Á þriggja ára fresti er gefin út matsskýrsla sem byggir á innra mati skólans síðast liðin þrjú ár. Helstu tæki skólans í innra mati eru: Olweusaráætl­unin, Skólapúlsinn, starfsmannaviðtöl, foreldrar í morgunkaffi með stjórnendum o.fl.

Á heimasíðu skólans eru birtar allar helstu áherslur og greinargerðir úr innra mati. Greinargerðir um innra mat í sjálfmatsskýrslu eru skýrt fram settar og í þeim eru grundvallarupplýsingar um matið. Gera þarf árlega skýrslu um innra mat skólans sem grundvöll fyrir umbótaáætlun hvers árs.

Umbótaáætlun 2013-2016 liggur fyrir og er hún birt á heimasíðu. Í umbótaáætlun vantar að skil­greina einstaka umbótaþætti nánar til eins árs í senn og tilgreina viðmið um árangur þar sem það á við. Skipa þarf matshóp og tryggja að allir hagsmunaðilar skólans eigi sinn fulltrúa í honum.

Nám nemenda með sérþarfir

Í Salaskóla er námsumhverfið sveigjanlegt og mætir þörfum allra. Skipulag stuðnings við einstaka nemendur og nemendahópa stuðlar að því að hann fari fram innan skóla án aðgreiningar. Þar fá allir nemendur tækifæri til að þroska persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu. Gerðar eru einstak­lingsnámskrár fyrir þá nemendur sem þess þurfa og taka foreldrar þátt í gerð þeirra. Sérstakur aðili ber ábyrgð á að áætlanir um stuðning séu í samræmi við metnar sérþarfir, snemmtæk íhlutun er til staðar og stuðningur er endurmetinn reglulega og markvisst.

Gera þarf tilfærsluáætlun fyrir þá nemendur sem eru með einstaklingsnámskrá og/eða einstaklings­teymi sem heldur utan um nám þeirra. Áætlunin fylgi þeim frá grunnskóla í framhaldsskóla. Gera þarf móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir og birta á heimasíðu. Æskilegt er að nemendur eigi sæti í einstaklingsteymum sem fjalla um málefni þeirra og fái þannig tækifæri til að hafa áhrif á framvindu námsins.

Í framhaldi þessa mats verður matsskýrsla send skólanum og sveitarstjórn þar sem fram koma nánari niðurstöður ytra matsins. Skýrslan verður aðgengileg á heimasíðu ráðuneytis og Námsmatsstofnunar. Skóli og sveitarstjórn setja í framhaldi matsins fram áætlun um þær umbætur sem lagðar eru til og ráðuneyti fylgist síðan með að þeim sé framfylgt.“ 

Birt í flokknum Fréttir og merkt .