
Góðir gestir komu í skólann í dag til að heimsækja sérstaklega nemendur í 6. og 7. bekk. Þau Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður og Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur kynntu skáldið Jóhannes frá Kötlum með tali og tónum. Nemendur hlustuðu með athygli, hrifust með söngnum og voru áreiðanlega margs vísari á eftir. Ávallt er gaman að fá ljúfa heimsókn sem þessa og brjóta upp hversdagsleikann og er þeim Valgeiri og Steinunni færðar þakkir fyrir. Einhverjir nemendanna munu síðan halda áfram að fjalla um kveðskap Jóhannesar frá Kötlum í skólanum.
Category Archives: Fréttir
Myndir frá Reykjum
Fleiri myndir eru nú komnar í myndasafn skólans frá Reykjaferð sjöundubekkinga á dögunum. Þær eru misjafnar að gæðum en ákveðið var að láta þær flakka engu að síður.
Vetrarfrí

Krakkarnir í 6. bekk gerðu sér glaðan dag í morgun og komu með kökur í skólann sem fóru á sameiginlegt hlaðborð þeirra inni í skólastofunni. Þeir sem áttu leið framhjá duttu í lukkupottinn því þeir fengu að gæða sér á öllum kræsingunum. Krakkarnir voru að fagna góðu starfi undanfarnar vikur og væntanlegu vetrarfríi. Vetrarfrí er í Salaskóla mánudag og þriðjudag, 25. -26. október en kennsla hefst aftur miðvikudaginn 26. október skv. stundaskrá.
Lífið á Reykjum

Nemendur á Reykjum halda dagbók. Hér kemur dæmi frá nemanda, birt með góðfúslegu leyfi.
Dagur 2 á Reykjum
Ég vaknaði seint á eftir hinum. Ég fór og fékk mér hafragraut og fór í tíma. Ég byrjaði í „undraheimi auranna“ og lærði margt um peninga og lán til dæmis debet- og kreditkort, lán og vexti. Síðan fór ég í íþróttir og sund og var aðeins lengur í sundi. Eftir það var frjálst og síðan matur og eftir það var kvöldvaka og kvöldhressing. Eftir það skrifaði ég í þessa bók og þá kom Hjalti og sagði þið eigið að fara að sofa eftir tvær mínútur svo góða nótt.
Furðulegar kveðjur frá Reykjum

Stórundarlegir atburðir áttu sér stað á kvöldvöku á Reykjum í gærkvöldi. Menn breyttust í konur, börn breyttust í gulrætur, ungur drengur át 5 mjólkurkex á minna en mínútu og einhverjir fengu kalda sturtu úti á miðju gólfi. Spenningurinn er engu minni fyrir kvöldvökuna í kvöld. Hvað gerist næst???Annars er lítill tími til að skrifa fréttir, það er svo margt skemmtilegt að gera!
Nokkrar myndir frá Reykjum í myndasafni og fleiri eiga eftir að bætast við.
Stuðkveðjur frá Reykjum

Dagurinn í dag er búinn að vera hreint frábær. Veðrið er gott, logn og 2-3 stiga frost. Krakkarnir una sér við leik og störf og hér er bros á hverju andliti. Kennararnir eru ótrúlega ánægðir með gemlingana sína, kvöldið gekk vel og voru krakkarnir endurnærðir í morgun og tóku vel til matar síns. Í dag er m.a. búið að skoða byggðasafnið, fara í íþróttir og sund og fræðast um undraheim auranna. Ekki er svo allt búið enn, allur eftirmiðdagurinn eftir… og auðvitað kvöldvakan!
Bestu kveðjur frá Reykjum

Nú eru reykjalingarnir komnir á áfangastað. Ferðin gekk vel þrátt fyrir rok og rigningu. Gert var stutt stopp í Borgarnesi til að pissa og teygja úr sér. Nú eru krakkarnir komnir í sína hópa og andinn í hópnum mjög góður, allir hressir og láta ekki bleytu og vind á sig fá. Skoðið heimasíðu Skólabúðanna á Reykjum.
Húllað, hoppað og skákir tefldar

Á seinni degi fjölgreindaleika gekk allt eins og í sögu. Í íþróttahúsinu var húllað og hoppað af miklum móð, klifrað upp í rjáfur, boltar látnir skoppa og handleggir jafnvel lengdust um mun t.d. á „hanga á slá“ stöðinni. Sums staðar reyndi svo sannarlega á kunnáttu í landafræði og á einum stað var kannað hversu gott þreifiskynið væri hjá krökkunum. Í sjálfu skólahúsnæðinu var t.d. jóga iðkað, sögur skrifaðar, danssporin tekin, á einni stöðinni reyndi mjög á leikhæfileika að ógleymdri skákstöðinni. Á þeirri stöð tók skáksnillingurinn Birkir Karl á móti liðunum og skoraði á þau að tefla við sig. En ekki langt frá þeirri stöð vildi svo vel til að sat annar skáksnillingur, reyndar fv. heimsmeistari Anatolí Karpov, og tefldi við einn af nemendum skólans, Hilmi Frey. Karpov er hér á landi vegna 111 ára afmælis Taflfélags Reykjavíkur og heimsótti skólann okkar í leiðinni og tók nokkrar skákir. Ekki eru allir jafnheppnir og við að fá heimsmeistarann sjálfan í heimsókn.
Hér eru MYNDIR FRÁ FJÖLGREINDALEIKUM: Degi 2 og einnig frá heimsókn Karpovs.











