Miðvikudagurinn 2. október rann upp, mildur en dálítið blautur. Krakkar og kennarar Salaskóla drifu sig á fætur og fóru að búa sig í skólann. En það var eitthvað öðruvísi við þennan dag en aðra daga. Krakkarnir voru að vísu mættir á réttum tíma með bros á vör og mjög eðlilegir á að líta. En það leit ekki út fyrir að einhverjir kennarar væru í skólanum. Hvað varð um kennara Salaskóla? Mættu þeir aldrei í skólann? Það var enginn þeirra sjáanlegur en þess í stað fylltist kennarastofan kl. 8 af afar sérkennilegu fólki (jafnvel ófrýnilegu) og inn á milli voru alls kyns dýr. Óó…. þetta leit ekki vel út. Hvernig átti t.d. tígri að kenna íþróttir, Mexíkani íslensku og belja stærðfræði. Hver vill t.d. láta vampýru kenna sér náttúrufræði? Nei, nei… hvað er að sjá! Þarna situr pandabjörn þar sem ritarinn er vanur að sitja og kjaftar í símann. Er allt að fara úr böndunum í skólanum? Hvar eru eiginlega Hafsteinn og Hrefna? Við hjá salaskoli.is munum flytja ykkur fréttir af þessu skrítna ástandi um leið og eitthvað fer að skýrast. Ljósmyndari er á staðnum og mun sýna fleiri myndir af þessu ófremdarástandi innan tíðar.
Category Archives: Fréttir
9. sept. – skemmtilegur dagur
Síðastliðinn föstudag var gríðarlega góð þátttaka í Göngum saman átakinu sem við sögðum frá fyrir helgi hér á heimasíðunni. Sumir nemendur voru afar duglegir og gengu mjög langa leið í skólann sem var mikill dugnaður svona í morgunsárið. Þegar komið var í skólann voru verkefni einkum tengd lestri því verið var að halda upp á Dag læsis. Vinabekkir hittust og gaman var að sjá hvernig stórir og smáir sameinuðust í lestrinum. Þau eldri lásu gjarnan fyrir þau yngri, krakkarnir skrifuðu saman sögur og margir sökktu sér djúpt niður í lesturinn. Alls staðar var lesið, undir borðum, upp á borðum, undir stigum, saman við borð, í krókum, í fataklefum og gjarnan var vasaljós notað við lesturinn. Nemendur mættu í náttfötum í skólann þennan dag sem setti notalegan blæ á daginn og gerði lesturinn einhvern veginn svo „kósí“. Skoðið myndir frá þessum skemmtilega degi.
Skólaárið 2013 – 2014
Göngum og lesum
Við hér í Salaskóla ætlum að taka þátt í átakinu Göngum í skólann 2013 og hvetjum alla, bæði nemendur og starfsfólk, til að vera með og byrja átakið okkar með því að ganga eða hjóla í skólann á næstkomandi mánudag, 9. september. Meðfylgjandi er góð ráð um daglega hreyfingu sem getur verið fróðlegt að kíkja aðeins á. Smellið á myndina til að stækka.
Á mánudaginn ætlum við líka að halda upp á Dag læsis sem er 8. september. Þá verður bryddað upp á ýmsu á aldursstigunum í þágu lesturs og læsis. Sem dæmi má nefna að nemendur á miðstigi eru í óða önn að undirbúa þátttöku sína í lestrarkeppninni Lesum meira. Í þeirri keppni taka þátt margir grunnskólar í Kópavogi þar sem aðalmarkmiðið er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og að áhugi á bókalestri eflist. Ákveðnar bækur eru „í pottinum“ og nú er um að gera fyrir bekkina að fara að undirbúa sig með því að allir nemendur lesi eins mikið og þeir komast yfir. Hljóðbækur eru gjarnan notaðar í þessu átaki.
Skólinn settur
Í dag, 21. ágúst, var Salaskóli settur í 13 sinn en þá mættu nemendur í andyri skólans og voru skipaðir í bekki af skólastjórnendum. Síðan fóru þeir með umsjónarkennara sínum í kennslustofu bekkjarins þar sem afhent var stundaskrá og spjallað saman. Margir foreldrar fylgdu börnum sínum til skóla í dag. Það er alltaf eftirvænting hjá krökkunum að byrja aftur, gaman að hitta félagana og setja dagana í fastar skorður. Flestir eru broshýrir, jafnvel sposkir á svipinn en aðrir hljóðir og pínulítið feimnir sem er afar eðlilegt við þessar aðstæður. Í Salaskóla eru um 520 nemendur núna og hafa þeir aldrei verið fleiri, af þeim sökum er búið að setja niður tvær lausar skólastofur á skólalóðinni sem hafa fengið heitin Fjallasalur og Skógarsalur. Við, starfsfólkið í Salaskóla, hlökkum til starfsins í vetur. Skóli hefst samkvæmt sundaskrá á morgun, föstudag, hjá öllum nema 1. bekkingum sem verða boðaðir sérstaklega. Myndir frá skólasetningu.
Skólasetning
Skólasetning Salaskóla verður fimmtudaginn 22. ágúst. Nemendur mæta sem hér segir:
2., 3. og 4. bekkur kl. 9:00
5., 6. og 7. bekkur kl. 10:00
8., 9. og 10. bekkur kl. 11:00
Kennsla í 2. – 10. bekk hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 23. ágúst.
Nemendur sem eru að fara í 1. bekk verða sérstaklega boðaðir með foreldrum sínum dagana 22. og 23. ágúst. Kennsla skv. stundaskrá hefst í 1. bekk mánudaginn 26. ágúst.
Dægradvöl opnar föstudaginn 23. ágúst en lokainnritun fer fram þriðjudaginn 22. ágúst.
Við bjóðum nýjum nemendum öðrum en þeim sem eru að fara í 1. bekk í heimsókn í skólann þriðjudaginn 20. ágúst kl. 12.
Starfsáætlun Salaskóla 2013-2014
Nú er starfstáætlun Salaskóla 2013-2014 komin á heimasíðuna. Smellið hér til að skoða hana.
Skráning í dægradvöl
Þeir foreldrar sem eiga eftir að sækja um vist í dægradvöl fyrir veturinn eru beðnir um að gera það sem fyrst og eigi síðar en 20. ágúst. Hægt er að skrá hér.
Þeir sem eru búnir að skrá eiga ekki að gera það aftur.
Til foreldra í 1. – 4. bekk
Ritfangaverslanir auglýsa nú rækilega tilboð sín til foreldra skólabarna. Heimkaup hefur sett lista allra skóla upp á heimasíðu sinni en þegar listar okkar í Salaskóla eru bornir saman við listana sem eru á heimasíðu verslunarinnar ber þeim ekki saman. Þetta á við um 1. – 4. bekk.
Þar verðum við með sameiginleg innkaup á ýmsum vörum og höfum því ekki sett þá á listana. Biðjum ykkur um að athuga þetta og miða innkaupin við það sem á okkar listum stendur en þeir eru allir á heimasíðu skólans. Svo minnum við ykkur bara á að kanna hvað er til síðan síðasta vetur því óþarfi er að kaupa það sem er til.
Starfið hafið í Salaskóla
Salaskóli hefur verið opnaður eftir sumarleyfi. Við erum að leggja lokahönd á undirbúning skólaársins, innrita nýja nemendur, ráða starfsfólk sem vantar, koma húsnæðinu í gott horf o.s.frv. Það er mikilvægt fyrir okkur að fá að vita strax um nýja nemendur og einnig ef einhver er að fara í annan skóla.
Við hlökkum til samstarfsins við ykkur öll í vetur.