Kjörfundur 10.bekkjar

10.bekkur hafa unnið hörðum höndum að því síðustu vikur að mynda stjórnmálaflokka sem bjóða sig fram til nemendaþings. Flokkarnir hafa það markmið að vinna að bættum hag nemenda í unglingadeild skólans.

Hápunktur verkefnisins er svo framboðsfundur þar sem nemendum í 7.-9. bekk er boðið að fylgjast með framboðsræðum fulltrúa flokkanna og svo í kjölfarið að kjósa sína fulltrúa á þingið.

Framboðsfundurinn fór fram í morgunn og fluttu ræðuskörungar 10. bekkjar innblásnar ræður við góðar undirtektir nemenda í 7.-9. bekk. Hér fyrir neðan má svo sjá myndir frá fundinum.

Nýr skólastjóri Salaskóla

Kristín Sigurðardóttir er nýr skólastjóri Salaskóla frá og með 1. apríl. tók Kristín við starfinu af Hafsteini Karlssyni sem hefur verið skólastjóri Salaskóla frá stofnun skólans haustið 2001. Við óskum honum alls hins besta og þökkum honum fyrir allt það frábæra starf sem hann hefur gert í þágu Salaskóla.

Kristín er grunnskólakennari að mennt, með framhaldsmenntun í skólastjórnun, opinberri stjórnsýslu og sálfræðiráðgjöf. Kristín kemur til okkar frá Smáraskóla þar sem hún hefur verið aðstoðarskólastjóri sl. 3 ár. Kristín var skólastjóri í Flóaskóla á Suðurlandi í 8 ár og aðstoðarskólastjóri í Hjallaskóla í Kópavogi í 2 ár þar á undan. Auk annarra starfa hefur hún einnig starfað við kennslu í grunnskólum og við ráðgjöf í verkefnum tengdum geðheilbrigðisþjónustu.


Stóra upplestrarkeppnin

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Kópavogi fór fram í Salnum fimmtudaginn 24. mars. Stóra upplestrarkeppnin var haldin í 25. sinn í Kópavogi en keppnin á 26 ára afmæli í ár. Keppnin er ávallt sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember og markmið hennar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Í Salnum komu saman tveir fulltrúar frá öllum 9 grunnskólum bæjarins og lásu þau hluta úr sögunni Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason. Því næst völdu nemendur eitt af tíu ljóðum eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og að lokum fluttu þau ljóð að eigin vali. Allir lesararnir stóðu sig með mikilli prýði og mjög erfitt var fyrir dómara að gera upp á milli þeirra.
Snædís Erla Halldórsdóttir úr Snælandsskóla sigraði Stóru upplestrarkeppnina í Kópavogi, í öðru sæti var Júlía Heiðrós Halldórsdóttir úr Álfhólsskóla og í þriðja sæti var Georg Bieltvedt Jónsson úr Salaskóla.

Inn á milli upplestra fluttu nemendur úr Skólahljómsveit Kópavogs fallega tónlist og þátttakendur fengu viðurkenningar, bók og blóm að gjöf.
Allir lesarar stóðu sig með mikilli prýði og mjög erfitt var fyrir dómara að gera upp á milli þeirra. Það er því ljóst að nemendur í Kópavogi hafa staðið sig afar vel í ræktunarhluta keppninnar í skólunum áður en til lokahátíðarinnar kom.

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs

Verðlaun og viðurkenningar í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs 2022 voru veitt við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi fyrir stuttu.
 
Í öðru sæti var nemandi úr Salaskóla, Sóley June í 6.bekk fyrir ljóðið ,,Þegar maður leggst í mosa“ og sérstaka viðurkenningu hlaut annar nemandi úr skólanum, Dagur Andri í 5.bekk fyrir ljóðið ,,Vettlingur“
 
Þegar maður leggst í mosa
Sóley June
 
Ég labba á mosa.
Hann kallar á mig,
ég leggst niður.
Vindur gnauðar yfir höfði
en snertir ekki mig.
Ég sé haförn fljúga yfir mig,
svo stór og sterkur fugl.
sér mig ekki.
 
Vettlingur
Dagur Andri
 
Einhver týndi vettlingi
Vettlingurinn er kaldur
Hann er frosinn
Hann er umkringdur steinum
Laufin eru búin að falla.

Samrómur

Salaskóli sigraði í flokki A, flokki stærri skóla, í Lestrarkeppni grunnskóla 2022 á dögunum. Alls lásu 703 keppendur (nemendur, starfsfólk og fjölskyldur) 107.075 setningar sem var virkilega vel gert. Þann 15. mars sl. fóru Steinunn María í 3.bekk  og Davíð Logi í 7.bekk ásamt Ásu kennara á Bessastaði að taka á móti verðlaununum sem voru ekki að verri endanum. Með þessum frábæra árangri hlaut Salaskóli  Monoprice MP10 Mini þrívíddar prentara og eitt sett af Rasberry Pi 400 tölvu í verðlaun. Við hlökkum til að taka þátt að ári 😉

Samrómur

Lestrarkeppni grunnskólanna er nú formlega hafin. https://samromur.is/grunnskolakeppni2022

Okkur langar til þess að hvetja alla sem vettlingi geta valdið innan stórfjölskyldunnar um að lesa inn nokkrar setningar í nafni skólans til að koma okkur ofar á stigatöflunni. Það mega allir taka þátt eins oft og þeir vilja sama á hvaða aldri viðkomandi er.

Þið takið þátt með því að fara hér inn https://samromur.is/tala og fylgja fyrirmælunum.

Sigurvegari hvers flokks fær vegleg verðlaun frá Elko en hver sigurskóli mun fá Monoprice MP10 Mini þrívíddar prentara og eitt sett af Rasberry Pi 400 tölvu. Einnig verða veitt verðlaun til þriggja skóla sem skara fram úr, en vinna ekki sinn flokk, en hver þeirra mun fá tvö sett af Rasberry Pi 400 tölvum.

Koooooma svoooo- ÁFRAM ÍSLAND og ÁFRAM SALASKÓLI

Lúsíuhátíð 2021

Í Salaskóla hefur verið hefð að vera með Lúsíumessu sem tengist verndardýrðlingnum Santa Lúsíu. Barnahópur klæðist í hvíta kirtla og gengur syngjandi með kertaljós um ganga skólans. Stundum hafa um 80 börn tekið þátt. Í aðalhlutverki hafa þá verið 4. bekkingar og Lúsían hefur verið valin úr 7. bekk. Lúsían sjálf er prýdd ljósakransi.

Í ljósi aðstæðna breyttum við hefðinni (annað árið í röð) og 4. bekkur sá alfarið um sönginn, búningana og kertin. Við ákváðum að breyta aðeins hátíðinni í ár og bæta við fleiri söngatriðum inn fyrst við vorum nú að hafa fyrir því að stilla öllum tækjum og tólum upp.

Þessa fallegu jólastund sáu 10.bekkur um í þemavinnu.Þau sáu um allt skipulag, upptökur, skreytingar, að finna skemmtiatriði og að lokum streyma inn í allar stofur skólans. Úr varð þessi fallega og friðsæla stund í morgunsárið. Stöð tvö þarf að fara vara sig.

Hér má sjá myndbandið : https://www.youtube.com/watch?v=TzxxnI33vpE

Og nokkrar myndir frá hátíðinni

Bebras

Í ár var Salaskóli með flesta þátttakendur af þeim skólum sem tóku þátt á Íslandi, annað árið í röð 🎉 Alls tóku 355 nemendur í 3.-10.bekk þátt, sem er mjög vel gert og vil ég þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkunum🙏 Ekki nóg með það heldur var nemandi í 3. og 8.bekk í Salaskóla með hæsta skor á landsvísu í sínu erfiðleikastigi sem er frábær árangur 👏👏👏

Hér má sjá sigurvegarana í 8.bekk en Óðinn var í fyrsta sæti og með hæsta skor á landsvísu í sínum flokki með 123 stig.

(Bebras (e. Beaver) áskorunin er alþjóðlegt verkefni sem felst í að auka áhuga á upplýsingatækni og efla rökhugsun og tölvufærni (e. Computational thinking) meðal nemenda á öllum skólastigum)