
Músarrindlarnir komu í tölvuver í dag til að taka þátt í verkefninu „The Hour of Code“ eða Klukkustund kóðunar eins og það útleggst á íslensku. Um er að ræða viðburð á heimsvísu sem stendur í eina viku frá 8. til 14. desember.
Markmiðið er að börn á öllum aldri í heiminum sameinist í kóðunarverkefnum. Markið er sett á að 100 milljónir barna ljúki einhvers konar verkefnum af þessu tagi á einni viku. Tilgangurinn með verkefninu er að nemendur tuttugustu og fyrstu aldarinnar fái tækifæri til að fást við kóðun (forritun) því það þroski þá í að leita leiða og lausna sem er góður undirbúningur fyrir framtíðarstörf og líf í tæknivæddu þjóðfélagi.
Krakkarnir í 3. bekk sýndu verkefnunum gífurlegan áhuga og samvinna varð mikil við lausn þeirra. Með því að smella hér má sjá verkefnin sem krakkarnir eru að fást við. Þau ganga á venjulegar tölvur, spjaldtölvur, snjalltæki og jafnvel án tækja. Valin er íslenska við lausn þeirra. Fleiri bekkir í Salaskóla ætla að taka þátt í þessum verkefnum í vikunni.


Spurningakeppninni Lesum meira lauk í vikunni með því að súlur og svölur kepptu til úrslita. Súlurnar mörðu sigur með einu stigi á svölurnar og fá því bikar keppninnar til varðveislu í eitt ár. Veitt voru bókaverðlaun fyrir fyrsta og annað sætið. Allir bekkir fengu viðurkenningarskjal þar sem þeim var þökkuð þátttaka í keppninni. Stuðningslið bekkjanna fengu einnig úthlutað ákveðnum heitum eftir því hvernig þau stóðu sig í hvatningu fyrir liðið sitt. Svölurnar voru frumlegasta stuðningsliðið, himbrimar til fyrirmyndar, súlurnar það skrautlegasta, tjaldarnir þeir litríkustu og tildrurnar fjörugasta stuðningsliðið. Lómar þóttu hressasta stuðninsgliðið, flórgoðar með bestu hvatninguna og loks voru vepjurnar þær prúðustu. Til gamans má segja frá því að vepjurnar sem eru fimmtubekkingar var sá bekkur sem las mest allra á undirbúningstímanum. Flott hjá þeim. Markmiðið með Lesum meira lestrarkeppninni er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og að áhugi á bóklestri eflist. Það er von okkar að þau markmið hafi náðst að einhverju leyti. 





Spurningakeppnin LESUM MEIRA 2014, sem er lestrarkeppni á miðstigi, hófst í morgun með því að flórgoðar og tjaldar kepptu sín á milli. Afar skrautleg og flott lið mættu til leiks þennan morguninn með hvatningaspjöld í stíl við skrautlegan klæðnað og andlitsmálningu. Flórgoðar báru sigur úr bítum að þessu sinni með litlum mun stiga en bæði liðin stóðu sig afbragðs vel. Síðar í vikunni mætast tildrur og vepjur og þannig koll af kolli þar til fundin hafa verið tvö lið til að keppa til úrslita sem verður í lok nóvember.




