Námsskipulag í 6. og 7. bekk skólaárið 2009-2010

Í vetur hefur verið gerð tilraun til að vera með árgangahreinar bekkjardeildir í Salaskóla. Í ljósi reynslu okkar í vetur höfum við í hyggju að breyta svolítið kennsluskipulagi hjá okkur í því skyni að bæta enn frekar námsumhverfið til að nemendur ná góðum árangri í námi.

Breytingarnar ná til elstu bekkjanna, þ.e. frá 6. bekk og upp úr. Á unglingastiginu verða t.d. gerðar breytingar á valgreinum nemenda auk þess sem meira verður kennt í árgangablönduðum námshópum en áður hefur verið gert og þá með það að markmiði að nemendur fái í frekara mæli nám við hæfi en hægt er að gera í árgangabundnum bekkjum. Reynsla okkar af aldursblöndun á miðstigi er góð og í ljósi tilraunar okkar í vetur teljum við að hægt sé að ná betri árangri, bæði námslegum og félagslegum með aldurblönduðum bekkjum á því stigi.

Nemendur sem verða í 6. og 7. bekk næsta vetur eru um 65. Við ætlum að skipta þeim í þrjá námshópa og verða því um 22 nemendur í hverjum þeirra. Hugmyndin er að þróa áfram það kraftmikla og lifandi námssamfélag sem hefur verið á þessu aldursstigi og leggja áfram áherslu á nám við hæfi hvers og eins, metnað, kröfur og góð samskipti og félagatengsl.  

Kennslustofur 6. og 7. bekkja verða á efri hæð í miðhúsi en aðstaðan þar gefur mikla möguleika á fjölbreyttum kennsluháttum.

 

Við óskum eftir góðu samstarfi við foreldra í þessari vinnu okkar. Við erum fús að svara spurningum ykkar varðandi þetta skipulag ef einhverjar eru og biðjum ykkur um að hika ekki við að hafa samband.

Birt í flokknum Fréttir.