Þó nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á skipulagi kennslu á öllum aldursstigum í haust. Kennarar hafa farið vandlega í saumana á kennsluháttum og skoðað hvað má betur fara. Einnig hafa niðurstöður úr PISA og samræmdum prófum verið til skoðunar sem og umræður og tillögur foreldra sem komu fram í morgunkaffinu fyrr í vetur.
Niðurstaða okkar kemur fram í tveimur viðamiklum þróunarverkefnum sem þegar er byrjað að vinna að. Annað verkefnið nær yfir 1. – 7. bekk og þar er líklega sýnilegasta breytingin sú að bekkir verða ekki lengur aldursblandaðir, heldur verða í hverjum bekk nemendur sem fæddir eru á sama ári. Hver bekkur mun hins vegar eiga sér samstarfsbekk einum árgangi ofar eða neðar. Bekkirnir munu svo vinna saman að verkefnum þar sem aldursblöndun hentar vel.
Á unglingastigi verður skipulagi breytt þannig að auðveldara verði að koma til móts við ólíkan námsstíl nemenda. Hugmyndir okkar ganga út á að taka að hluta til upp áfangakerfi svipað og þekkist í framhaldsskólum, auka vinnu að stórum verkefnum, búa til leið fyrir nemendur sem eru mjög sjálfstæðir í námi og auka þátt list- og verkgreina á unglingastigi.
Við ætlum að auka fjölbreytni í kennsluháttum í öllum árgöngum. Gera starfið fjölbreyttara og freista þess að gera starfið í skólanum áhugavert fyrir alla nemendur.
Fljótlega verða foreldrar boðnir á frekari kynningu á þessum hugmyndum. Þær eru í mótun og vinnslu þó svo að meginlínur liggi fyrir. Þess má geta að sótt hefur verið um styrki til að vinna þessi verkefni.