Til samfélagsins í kringum Salaskóla
Það er með innilegu þakklæti í huga og kærleika í hjarta sem við þökkum ykkur fyrir stuðninginn í góðgerðarhlaupinu okkar þann 13. september sl. Ár hvert hlaupum við að hausti Ólympíuhlaup ÍSÍ og köllum það í leiðinni góðgerðarhlaup Salaskóla. Í ár ákváðum við að hlaupa góðgerðarhlaupið til styrktar nýstofnuðum minningarsjóði Bryndísar Klöru, en hún var nemandi í Salaskóla á sinni 10 ára grunnskólagöngu og alin upp í Salahverfinu.
Hlaupið okkar fékk mikla athygli og samhugurinn sem við fundum frá ykkur öllum; foreldrum, nágrönnum og fjölmörgum öðrum velunnurum skólans var áþreifanlegur. Það er skemmst frá því að segja að með ykkar stuðningi söfnuðum við rétt tæplega einni og hálfri milljón króna sem við afhentum sl. mánudag. Afhendingarathöfnin fór fram í húsnæði KPMG sem heldur utan um minningarsjóðinn, að viðstöddum forseta Íslands Höllu Tómasdóttur, sem er verndari sjóðsins. Við erum mjög stolt af þeim fulltrúum Salaskóla sem voru við afhendinguna, íþróttakennurunum okkar þeim Auði, Ísaki og Gísla og þremur nemendum, þeim Magnúsi Inga 10. bekk, Maríu 5. bekk og Kimaya 2. bekk.
Við í Salaskóla munum halda áfram að hlaupa til góðs og láta gott af okkur leiða. Innilegar þakkir fyrir að taka þátt með okkur og styrkja svo myndarlega við minningarsjóð Bryndísar Klöru. Fjármunum sem varið er í sjóðinn er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
Með fylgja nokkrar myndir frá afhendingunni