Stóra upplestrarkeppnin

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Kópavogi fór fram í Salnum fimmtudaginn 24. mars. Stóra upplestrarkeppnin var haldin í 25. sinn í Kópavogi en keppnin á 26 ára afmæli í ár. Keppnin er ávallt sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember og markmið hennar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Í Salnum komu saman tveir fulltrúar frá öllum 9 grunnskólum bæjarins og lásu þau hluta úr sögunni Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason. Því næst völdu nemendur eitt af tíu ljóðum eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og að lokum fluttu þau ljóð að eigin vali. Allir lesararnir stóðu sig með mikilli prýði og mjög erfitt var fyrir dómara að gera upp á milli þeirra.
Snædís Erla Halldórsdóttir úr Snælandsskóla sigraði Stóru upplestrarkeppnina í Kópavogi, í öðru sæti var Júlía Heiðrós Halldórsdóttir úr Álfhólsskóla og í þriðja sæti var Georg Bieltvedt Jónsson úr Salaskóla.

Inn á milli upplestra fluttu nemendur úr Skólahljómsveit Kópavogs fallega tónlist og þátttakendur fengu viðurkenningar, bók og blóm að gjöf.
Allir lesarar stóðu sig með mikilli prýði og mjög erfitt var fyrir dómara að gera upp á milli þeirra. Það er því ljóst að nemendur í Kópavogi hafa staðið sig afar vel í ræktunarhluta keppninnar í skólunum áður en til lokahátíðarinnar kom.

Birt í flokknum Fréttir.