Já, þær voru sannarlega flottar jólasveinahúfurnar sem nemendur og starfsfólk skartaði í dag enda hinn árlegi rauði dagur hér í Salaskóla en þá er mælst til þess að sem flestir klæðist einhverju rauðu. Þetta setur mjög skemmtilegan svip á skólann. Ýmislegt er verið að bralla á rauða deginum, víða mátti sjá jólaföndur í gangi í stofum, sumir bekkir voru að fara í jólatölvutíma (hvað skyldi það vera!!) og úr salnum mátti heyra jólalög sungin hástöfum. Þegar að var gáð voru allir krakkarnir í 4. bekk mættir í samsöng hjá Ragnheiði tónmenntakennara og tóku hraustlega undir sönginn hjá henni. Rauðu jólasveinahúfurnar settu skemmtilegan svip á samsönginn í dag. Á slíkum degi er að sjálfsögðu borinn jólagrautur á borð með kanilsykri og lifrarpylsu. Skoðið myndir.

Skín í rauðar skotthúfur
Birt í flokknum Fréttir.