Skák í Salaskóla

 

Skák hefur verið iðkuð af kappi í Salaskóla um árabil. Strax á fyrsta starfsári skólans, árið 2001, var skákborðum komið fyrir víðsvegar um skólann, bæði í kennslustofum og á göngum og nemendur hvattir til að tefla í skólanum. Einn af kennurum skólans, Margrét Sveinsdóttir, sýndi skákinni sérstakan áhuga, hvatti nemendur til að tefla og leiðbeindi þeim. Töfl stóðu öllum til boða og hægt var að setjast við skákborðið bæði í kennslustundum og í frítíma. Margir hinna ungu nemenda skólans sýndu þá þegar mikinn áhuga og færni í skákinni. Þá strax komu fram miklir hæfileikar hjá nemendum sem síðar hafa náð miklum árangri. Einn nemandi í 2. bekk sat t.d. löngum stundum við skákborð á gangi skólans og bauð bæði gestum og gangandi að tefla við sig. Foreldrar sem áttu leið í skólann fengu t.d. að spreyta sig á að tefla við hann og máttu margir þola ósigur fyrir þessu unga pilti.

Á öðru starfsári skólans réðst Tómas Rasmus að skólanum og hefur hann sinnt skákþjálfun nemenda og skáklífi skólans upp frá því. Allir nemendur lærðu mannganginn og fengu kennslu í skák í smiðjum og auk þess voru tvær skákæfingar á viku eftir skóla. Skákmót voru sett upp í skólanum og skólinn tók þátt í skólaskákmótum. Innanskólaskákmótin hafa alla tíð verið afar fjölmenn og á fyrsta mótinu árið 2003 kepptu t.d. 70 af 160 nemendum skólans á mótinu. Það hlutfall hefur haldist í gegnum tíðina.

Fljótlega fór Salaskóli að láta til sín taka á skákmótum. Fyrst á Kópavogsmótinu í skólaskák árið 2003 og á Íslandsmeistaramótum fór að bera á skólanum bæði fyrir góðan árangur og einnig fyrir hversu margar sveitir skólinn sendi til keppni. Skólinn skipaði sér fljótlega í fremstu röð með öflugum skákskólum eins og Rimaskóla, Laugalækjarskóla og Barnaskóla Vestmannaeyja. Árið 2006 varð skólinn Íslandsmeistari barnaskólasveita og tók þátt í Norðurlandamóti sem haldið var í Danmörku. Árið 2007 sendi skólinn sveit í heimsmeistaramót í skólaskák í Búlgaríu. Það varð góð ferð því sveitin hreppti heimsmeistaratitil. Í kjölfarið fór sveitin til Namibíu og Grænlands til að kynna skák og tefla við þarlenda skólakrakka.

Árið 2009 hreppti Salaskóli Íslandsmeistaratitil grunnskóla. Sveitin hélt til Stokkhólms og tók þátt í Norðurlandamóti grunnskóla í skák. Sveitin vann mótið með yfirburðum og fagnaði Norðurlandameistaratitli. Sigurganga skólans hélt áfram á vormánuðum 2010 en þá varði skáksveit hans Íslandsmeistaratitilinn.

Í Salaskóla er lögð áhersla á fjölbreytt skólastarf. Skákin er mikilvægur liður í fjölbreytninni og gefur fleiri nemendum tækifæri til að blómstra og njóta sín. Mörg hundruð börn og unglingar hafa mætt á æfingar og teflt á skákmótum í skólanum á þeim níu árum sem skólinn hefur starfað. Öflugustu skákmenn skólans eru í fremstu röð íslenskra skákmanna. Má þar nefna Patrek Maron Magnússon, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur, Pál Andrason, Eirík Örn Brynjarsson, Guðmund Kristin Lee, Birki Karl Sigurðsson, Ómar Yamak, Hildi Berglindi Jóhannsdóttur.

Tómas Rasmus kennari hefur borið skákstarfið uppi og á að öðrum ólöstuðum mestan heiður á góðu gengi Salaskóla í skák. Aðrir sem einkum hafa komið að þjálfun er Smári Rafn Teitsson, Sigurlaug Friðþjófsdóttir, Hrannar Baldursson og Guðlaug Björk Eiríksdóttir.

Birt í flokknum Fréttir og merkt .