Námsmat og viðtöl

Megintilgangur námsmats er örvun nemenda og námshjálp. Hverjum kennara ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámskrá og skólinn setja þeim. Námsmat fer ekki einungis fram í lok námstímans heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfs, órjúfanlegt frá námi og kennslu.

Nemendur fá skriflega umsögn tvisvar á skólaárinu, í janúar og í júní. Matið er m.a. sett fram skriflega og leitast við að benda á sterkar hliðar hjá nemendum, auk þess sem við hvetjum til dáða á öllum sviðum. Við
vonum að með því getum við gefið betri mynd af stöðu nemenda í náminu og gleggri upplýsingar. Við vonum líka að þessi leið stuðli að betri og jákvæðari sjálfsmynd allra nemenda en fátt er mikilvægara nú á tímum. Við viljum hvetja foreldra til að lesa umsagnirnar með börnum sínum og fagna þeim árangri sem náðst hefur. Fátt er börnunum meiri hvatning en fölskvalaus gleði yfir góðum afrekum þeirra.

Umsjónarkennarar kalla alla foreldra til sín tvisvar yfir veturinn. Sjá nánar á skóladagatali.

Birt í flokknum Fréttir.