Á dögunum fengu nemendur í 2. bekk heimsókn frá Blátt áfram. Það voru þær Hallveig Thorlacius og Helga Arnalds sem stjórnuðu brúðum í leikþættinum Krakkarnir í hverfinu.
Námsefnið Krakkarnir í hverfinu fjallar um líkamlegt ofbeldi og er samið og þróað með það fyrir augum að fræða börn um líkamlegt ofbeldi og gera þau meðvituð um þá þjónustu sem í boði er. Fræðslan felst í því að brúðurnar ræða saman um það sem þær hafa lent í og krakkarnir fá svo að bera fram spurningar í lokin.
Category Archives: Fréttir
Fingrafimir krakkar

Krakkarnir í 3. bekk eru að læra fingrasetningu þessa dagana og sýna því mikinn áhuga. Þau æfa sig á verkefnum sem eru inni á vef sem heitir Fingrafimi (http://vefir.nams.is/fingrafimi/) og skrá niður árangur sinn eftir hvern tíma. Þetta læra krakkarnir í svokallaðri tölvusmiðju í 3. bekk en einnig fá þau að æfa sig í ensku á enskuvef fyrir byrjendur og teikna með KIDPIX teikniforritinu sem öllum finnst gaman að vera í og er góð þjálfun fyrir höndina.
Fleiri myndir hér.
Hafragrautur í morgunsárið

Dagurinn er tekinn snemma í Salaskóla. Krakkarnir mæta kl. 7:30 suma morgna og fara í íþróttatíma, ýmist í vali eða skyldu. Á miðvikudögum og föstudögum er þeim svo boðið upp á meinhollan hafragraut sem fyllir þau orku áður en þau setjast inn í kennslustund. Allir sem vilja geta þá fengið graut meðan birgðir endast. Þetta hefur mælst vel fyrir hjá krökkunum og sífellt fleiri kjósa þessa einstöku hressingu í upphafi dags.
Lestrarkeppni á miðstigi
Í dag hófst formlegur undirbúningur fyrir lestrarkeppnina LESUM MEIRA sem nemendur á miðstigi taka þátt í síðar í vetur en þá munu bekkjardeildir miðstigs keppa sín á milli. Keppnin er samvinna skólasafns og kennara miðstigs en sex skólar í Kópavogi standa að slíkri keppni í ár innan síns skóla. Markmiðið með þessu er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist.
Krakkarnir hafa nú fengið inn í skólastofuna sína bókakassa með þeim bókum sem gefnar eru upp fyrir keppnina og eiga að lesa sem mest fram í aðra viku í október. Þá byrjar lestrarkeppni á milli bekkja þar sem tveir og tveir bekkir keppa sín á milli er endar með því að einn bekkur stendur uppi sem sigurvegari. Hver bekkur þarf að velja sér fimm manna lið (3 aðalmenn og 2 varamenn) en hinir í bekknum eru svokallaðir bakhjarlar sem hægt er að leita til í keppninni.
Fyrirkomulag keppninnar minnir á ÚTSVARIÐ á RÚV fyrir þá sem þekkja það en um er að ræða hraða-, vísbendinga-, ágiskunar- og valflokkaspurningar. Ekki er einungis spurt úr bókum á bókalista heldur er einnig gott að vera vel að sér í bókmenntaheiminum og hafa lesið í gegnum tíðina, vita um íslenska höfunda, bókatitla og fleira. Keppnin fer vel af stað því það var mikill hugur í mönnum við lesturinn í morgun. Vonandi halda krakkarnir áfram að vera svo áhugasamir og kappsfullir. Þeir sem eiga erfitt með lestur geta nýtt sér hljóðbækur. Hér er hægt að lesa nánar um keppnina og sjá bókalistann sem unnið er út frá.
Skólaárið 2012-2013
Skólaárið 2012-2013
Fyrstubekkingar óðum að læra á skólann

Nemendur í músarrindlum, sem eru fyrstubekkingar, komu á bókasafnið á dögunum til að læra á það og velja sér bók. Stefanía á bókasafninu kenndi þeim á útlánin og hvert þau ættu að skila bókum þegar þau kæmu með bækurnar aftur. Það voru áhugasamir nemendur sem fylgdust með þessum leiðbeiningum og vönduðu sig síðan við að skrá bækurnar út til þess að taka með niður í kennslustofu. Vafalítið eiga þessir nemendur eftir að koma oft við á bókasafninu í vetur.
Skólasetning

Nemendur streymdu á skólasetningu í morgun til þess að hitta umsjónarkennarann sinn, skólafélagana og fá stundaskrána í hendur. Krakkarnir voru hressir og glaðlegir að sjá eftir gott sumarfrí, eftirvæntingin skein úr andlitunum en það bar á feimni hjá einstaka nemanda eins og ofureðlilegt er. Foreldrar koma gjarnan með krökkunum í skólann fyrsta daginn. Skólinn hefst svo samkvæmt stundaskrá á morgun, fimmtudag, en fyrstubekkingar mæta ekki í skólann fyrr en á föstudaginn.
Nýtt skólaár
Skrífstofa skólans hefur nú opnað aftur eftir sumarleyfi en undanfarna daga hafa stjórnendur skólans unnið hörðum höndum að því að hnýta lausa enda varðandi skipulag vetrarins. Mikilvægt er að við fáum sem fyrst tilkynningar um breytingar frá foreldrum ef einhverjar eru. Hlökkum til samstarfsins í vetur.
Skólasetning er 22. ágúst og nemendur mæta sem hér segir:
2., 3. og 4. bekkur kl. 9:00
5., 6. og 7. bekkur kl. 10:00
8., 9. og 10. bekkur kl. 11:00
Kennsla í 2. – 10. bekk hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 23. ágúst.
Nemendur sem eru að fara í 1. bekk verða sérstaklega boðaðir með foreldrum sínum dagana 22. og 23. ágúst. Kennsla skv. stundaskrá hefst í 1. bekk föstudaginn 24. ágúst.
Dægradvöl opnar fimmtudaginn 23. ágúst fyrir 2. – 4. bekk.
Sumarleyfi
Skrifstofa Salaskóla er lokuð vegna sumarleyfa frá 21. júní. Opnað aftur 9. ágúst. Hægt er að skrá nýja nemendur í skólann hér á vefnum. Einnig er hægt að koma áríðandi skilaboðum til skólans með því að senda tölvupóst til skólastjóra hafsteinn@salaskoli.is. Hafið það gott í sumar.
Athugið að gátlistar (innkauplistar) yfir það sem nemendur þurfa að hafa i skólatöskunni sinni eru hér hægra megin á síðunni.










