Blár apríl – 4. apríl

Þriðjudaginn 4. apríl höldum við bláa daginn hátíðlegan í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfunnar. Þá eru allir hvattir til að klæðast bláu og foreldrar um leið hvattir til að ræða við og fræða börn sín um einhverfu.Líkt og undanfarin ár er það BLÁR APRÍL – Styrktarfélag barna með einhverfu, sem stendur fyrir deginum. Markmið bláa dagsins er að fá landsmenn alla til að sýna einhverfum börnum stuðning sinn og fræðast um einhverfu. Með aukinni vitund og þekkingu byggjum við upp samfélag sem er betur í stakk búið til að skilja þarfir einhverfra, virða framlag þeirra til samfélagsins og meta fjölbreytileikann að verðleikum. Undanfarin ár hafa margir brugðið á það ráð að setja myndir á instagram og facebook merktar #blarapril (með public stillingum) sem hefur gætt daginn skemmtilegum blæ og hjálpað til við að breiða út þennan jákvæða boðskap.

Íslenskt fræðsluefni um einhverfu ætlað börnum

Í byrjun apríl kemur út nýtt fræðslumyndband um einhverfu. Um er að ræða stutta teiknimynd ætlaða börnum á yngri skólastigum og er gerð hennar afrakstur söfnunarátaks styrktarfélagsins í fyrra. Þá hefur Ævar vísindamaður ljáð verkefninu krafta sína með stórskemmtilegri útkomu og verða herlegheitin frumsýnd í byrjun aprílmánaðar á nýjum vef, www.blarapril.is, sem opnar samhliða. Er það von félagsins að fræðslumyndbandið muni nýtast sem víðast í þeim tilgangi að fræða og upplýsa um einhverfu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

 

Nokkrir áhugaverðir punktar um einhverfu:

  • Einhverfa er meðfædd og því fötlun en ekki sjúkdómur
  • Einhverfa er röskun í taugaþroska og einkennin koma venjulega í ljós fyrir þriggja ára aldur
  • Einkennin birtast helst í skertri getu til að tjá sig, félagslegu samspili og áráttukenndri hegðun
  • 1 af hverju 68 barni fæðist með röskun á einhverfurófi (1,5%) skv. nýjum erlendum rannsóknum
  • Drengir eru 4-5 sinnum líklegri til að fá einhverfugreiningu en stúlkur
  • Það skiptir sköpum að börn með einhverfu fái greiningu og viðeigandi aðstoð sem allra fyrst
  • Engin tengsl eru milli bólusetninga og einhverfu (hefur verið margafsannað af vísindasamfélaginu)
  • Birtingarmyndir einhverfu eru margar og birtast aldrei alveg eins hjá hverjum og einum
  • Einhverfir hafa ótalmargt fram að færa og hafa sína styrkleika – eins og allir aðrir

Sýnum lit og klæðumst bláu þriðjudaginn 4. apríl nk. til stuðnings einhverfum börnum. Fögnum fjölbreytileikanum – því lífið er blátt á mismunandi hátt!

#blarapril

 

Spjaldtölvuverkefni Salaskóla

Farið var af stað með spjaldtölvuverkefni Kópavogsbæjar haustið 2015. Verkefnið byrjaði með kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, sem varð að veruleika: að allir nemendur í grunnskólum Kópavogs myndu fá spjaldtölvur til að nota í skólanum. Saga spjaldtölvuvæðingarinnar er samt sem áður töluvert lengri hér í Salaskóla, en áður höfðu nokkrir kennarar hér unnið með þær í þrjú ár. Nú hefur öllum nemendum í 5. – 10. bekk verið afhentar spjaldtölvur og verkefnið heldur áfram að þróast.                            Verkefnið hefur gengið vel og ákváðum við í Salaskóla að gera þrjú stutt myndbönd um verkefnið. Í einu þeirra heyrum við hvað starfsfólk hefur að segja um verkefnið, í öðru hverjar skoðanir nemenda er og í þriðja lagi foreldrar. Við munum koma til með að birta myndböndin næstu vikurnar.

Hvað hefur starfsfólk skólans að segja um verkefnið ? 

Rætt var við:

Huldu Geirsdóttur, deildarstjóra og jafnframt forsprakka spjaldtölvuverkefnsins hér í Salaskóla, en það var hún sem kom með þá hugmynd fyrir um það bil fimm árum að byrja nota spjaldtölvur í kennslu.

Kristínu Björk, kennsluráðgjafa spjaldtölvuverkefnisins. Í því felst að vera kennurum grunnskólum Kópavogs innan handar, halda námskeið og skipulegga og búa til verkefni.

Loga Guðmundsson, verkefnastjóra upplýsingatækni og kennara við Salaskóla. Logi er forfallinn tæknifíkill og hefur verið með frá upphafi við að þróa nýja kennsluhætti með spjaldtölvunum.

Fyrsta myndbandið má nálgast hér

Vísindasmiðja

Nemendur í Salaskóla hafa verið duglegir við að heimsækja Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Þar fá þeir að kynnast heimi náttúru – og raunvísinda. Starfsmenn smiðjunar eru bæði nemendur og kennarar Háskóla Íslands í eðlis-, efna og náttúrufræði.

Nemendur í 7. bekk heimsóttu smiðjuna í dag og við tókum nokkrar myndir.

Ása kennari ásamt efnafræðingi sem sýndi okkur allskyns kúnstir

Fleiri myndir má nálgast hér

 

Skákmót 1. og 2. bekkur

Skákmót Salaskóla 2017, hófst klukkan 8.20 í dag og kepptu 1. og 2. bekkur

Við tókum nokkrar myndir af krökkunum í dag og svo munu fleiri myndir bætast við í myndasafnið eftir hvert mót.

En dagskráin er sem hér segir:

Föstudaginn 17. mars kl. 8:20 til 11:30 – 8. – 10. bekkur

Þriðjudaginn 21. mars kl. 8:20 til 11:30 – 3.-4. bekkur

Miðvikudaginn 22. mars kl. 8:20 til 11:30 – 5. – 7. bekkur

Meistaramót meistaranna, þar sem 3-4 úr hverjum árgangi taka þátt verður haldið á fimmtudaginn 21. mars.

Fleiri myndir má nálgast hér