Stefna Salaskóla

Salaskóli er framsækinn skóli, óragur við að fara ótroðnar brautir. Í stefnumótun og starfi er stuðst við rannsóknir, innlendar og erlendar, og reynslu. Nemendur og hagsmunir þeirra eru ávallt í fyrsta sæti. Allt starfið miðast við að gera sérhvern þeirra að góðum og nýtum þegn þessa lands, óhræddum við að glíma við öll þau nýju verkefni sem honum munu mæta á lífsleiðinni.

Helstu áhersluatriði eru:

Áhersla á einstaklinginn

Við leggjum áherslu á sterkar hliðar hvers einstaklings og að sérhver nemandi fái að njóta sín sem einstaklingur og í hóp.

Umhverfismálin

Skólinn er „grænn skóli” og hefur hlotið viðurkenningu Landverndar sem slíkur. Nemendur, foreldrar og starfsfólk hafa gert með sér umhverfissáttmála. Við flokkum rusl, spörum orku og notum ekki einnota drykkjarumbúðir.

Strákar og stelpur

Við leggjum áherslu á að bæði strákar og stelpur fái að njóta sín. Stelpurnar  fyrir að láta meira til sín taka, verða hugrakkari, taka meira rými og verða líkamlega virkari. Strákarnir þurfa að læra að virða mörk og reglur og sýna umhyggju.

Heilbrigði, hreyfing og hollusta

Við temjum okkur heilbrigði og holla lífshætti. Markviss áhersla er lögð á útivist og fjölbreytt íþróttastarf.

Siðfræði og góð framkoma

Við leggjum áherslu á þau gildi sem sérhver manneskja í siðmenntuðu samfélagi verður að rækta með sér og að nemendur temji sér góða framkomu og góð vinnubrögð.

Heimili og skóli 

Við leggjum mikið upp úr góðu sambandi og samstarfi við foreldra. Upplýsingar um skólastarfið eru aðgengilegar og foreldrar fá tækifæri til að hafa áhrif á mótun skólastarfsins.

salaskoli

Um skólann

Salaskóli tók til starfa í sumarlok 2001. Skólinn er í Salahverfi, í Leirdal, sem liggur norðan við Rjúpnahæð og sunnan við Seljahverfi í Reykjavík. Skólaárið 2014 – 2015 eru nemendur 550 í 1.-10. bekk í 26 bekkjardeildum. Starfsmenn eru 80.

Skólinn býr við afbragðsgóða aðstöðu. Húsnæði skólans er hlýlegt og gott og skólinn er vel búinn kennslugögnum og tækjum. Við hlið skólans er íþróttamiðstöðin Versalir og þar eru íþróttasalir og sundlaugar sem skólinn hefur afnot af. Það er þó orðið nokkuð þröngt um nemendur og tveimur lausum kennslustofum hefur verið komið fyrir á lóð skólans. 

Umhverfi skólans er fjölbreytt og gefur mikla möguleika til fjölbreyttrar kennslu. Skammt frá skólanum er ákjósanleg útivistarsvæði. Fremur stutt er í bæði Elliðavatn og Vífilsstaðavatn. Í næsta nágrenni skólans er kirkjugarður og golfvöllur. Skólalóðin er hönnuð m.a. með tilliti til útikennslu. Hún er fjölbreytt, með völlum og leiktækjum. Í Rjúpnahæðinni eigum við útikennslulund með leikskólunum í hverfinu. 

salaskoli