Baráttudagur gegn einelti

Þann 8. nóvember tóku allir nemendur skólans auk starfsfólks þátt í baráttudegi gegn einelti. Dagurinn er að öllu jöfnu haldinn þennan dag ár hvert. Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti og hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.

Af þessu tilefni gengu 10. bekkingar í leikskóla í hverfinu og náðu í elstu leikskólabörnin og fylgdu þeim í Salaskóla. Saman mynduðum svo vináttukeðju í kringum Salaskóla og knúsuðum við þannig skólann okkar. Eftir vel heppnað knús stjórnuðu nemendur í 9. bekk skemmtilegum útileikjum í sínum fjölgreindahópum og fengu yngri nemendur með í fjörið. Elstu nemendur skólans léku við leikskólavini okkar áður en þeim var fylgt aftur í sinn skóla.

Virkilega vel heppnaður viðburður og hafa nemendur á unglingastigi hvarvetna fengið mikið hrós þennan dag sem og fyrir sitt framlag til Fjölgreindaleika skólans, fyrir ábyrga hegðun, góða hópstjórn og hlýtt og hvetjandi viðmót gagnvart yngri nemendum.

Birt í flokknum Fréttir.