Þann 20. janúar fór fram verðlaunaafhending Fjölgreindaleika Salaskóla sem haldnir voru dagana 6. og 7. nóvember síðastliðinn. Þrjú stigahæstu liðin hlutu verðlaunapening og stigahæstu fyrirliðarnir voru sérstaklega heiðraðir með bíóferð.
Við erum ákaflega stolt af nemendum okkar sem stóðu sig glimrandi vel á Fjölgreindaleikunum. Þau sýndu fjölbreytta hæfni, dugnað og jákvætt viðmót og lögðu öll sitt af mörkum sem varð til þess að leikarnir heppnuðust einstaklega vel.
Fyrirliðar liðanna, elstu nemendurnir, eiga einnig mikið hrós skilið. Þau voru öflugar fyrirmyndir, sýndu frábæra hópstjórn, ábyrgð, hlýju og hvetjandi viðmót. Fyrirliðar gegna lykilhlutverki í Fjölgreindaleikunum þar sem eldri nemendur leiða þá yngri áfram, skapa öryggi, efla samvinnu og leggja grunn að jákvæðum samskiptum.
Fjölgreindaleikarnir eru skemmtilegir og gefandi dagar þar sem nemendur blómstra á fjölbreyttan hátt, vinna saman í aldursblönduðum hópum og mynda ný vinatengsl, í anda vináttu, virðingar og samstarfs sem eru einkunnarorð Salaskóla.
Til hamingju allir þátttakendur og takk fyrir frábæra Fjölgreindaleika 🙂

