Miðvikudagskvöldið 3. júní voru foreldrar barna í 5. og 6. bekk boðaðir á fund þar sem þeim var kynnt námsskipulag næsta skólaárs. Mjög góð mæting var á fundinn sem sýnir mikinn áhuga foreldra á skólastarfinu. Skólastjóri greindi frá þeim breytingum sem ætlunin er að gera á skipulagi í 6. og 7. bekk næsta vetur, en þá verður fjórum bekkjum sem nú eru í 5. og 6. bekk steypt saman í 3 aldursblandaða bekki. Í máli hans kom fram að fækkun nemenda í þessum árgöngum hefði orðið til þess að kennarar og skólastjórnendur fóru að velta upp möguleikum á breyttu fyrirkomulagi þar sem saman færi betri nýting fjármuna og mjög gott faglegt starf.
Að lokinni kynningu hans svöruðu skólastjórnendur og kennarar spurningum foreldra. Mjög jákvæður andi var á fundinum og þó vissulega kæmu fram áhyggjuraddir var það mál manna að þessi lausn væri góður kostur í þeirri stöðu sem uppi er.
Á næstu dögum verður raðað í nýju bekkina og munu skólastjórnendur hafa um það víðtækt samstarf við kennara, nemendur og foreldra.