Að undanförnu hefur öryggi barna og unglinga á Netinu mikið verið til umræðu. Þrátt fyrir að margt gott sé að finna á Netinu er þar líka ýmislegt sem þarf að varast og þar geta þrifist hættuleg og neikvæð samskipti. Að þessu tilefni hafa samtökin Heimili og skóli sett af stað vakningarverkefni um jákvæða og örugga notkun barna og unglinga á Netinu. Vakningarverkefnið felst í kynningum fyrir nemendur og foreldra þeirra.´
Í næstu viku verða fundir fyrir nemendur í 5. – 10. bekk hér í Salaskóla og þriðjudaginn 3. mars eru foreldrar boðaðir til fundar kl. 8:00 – 9:00.
Internetið er frábær upplýsingaveita og tæki til samskipta en þar felast einnig ýmsar hættur sem mikilvægt er fyrir foreldra að þekkja og gera sér grein fyrir. Til að foreldrar geti talað við börnin sín og leiðbeint þeim um öryggi og góða hegðun þurfa þeir að þekkja það umhverfi sem þeir eru í dags daglega. Leiðbeiningar um "umferðarreglur" á netinu eru því orðinn einskonar hluti af uppeldishlutverkinu.
Á fyrirlestrinum verður farið í gegnum svipaða hluti og með nemendum, en einnig rætt hvernig foreldrar sjá netnotkun barnanna sinna og svo hvernig börnin upplifa netnotkun sína og samskipti sín við foreldra. Á fyrirlestrinum verður farið í gegnum bloggsíður, tölfræðilegar upplýsingar, msn einelti, netið og friðhelgi einkalífsins, netvini, nettælingu og ræða aðeins um kynslóðabilið þ.e. hvers vegna foreldrar skilja ekki tölvunotkun barna sinna.
Við hvetjum foreldra til að mæta á þennan fund.