Almennur fyrirlestur fyrir foreldra og annað áhugafólk um skólamál
Fimmtudaginn 21. ágúst kl. 19:30 mun Kelley King halda almennan fyrirlestur í hátíðarsal Breiðholtsskóla. Fyrirlesturinn verður á ensku.
Kelley fjallar um mun á strákum og stelpum og hvernig hægt er að koma til móts við kynjamun í uppeldi og kennslu.
Foreldrar og annað áhugafólk er hvatt til að mæta.
Þessa dagan stendur Breiðholtsskóli fyrir námskeiðum og fyrirlestri um ólíka nálgun við kennslu drengja og stúlkna. Hátt í 200 kennarar sækja námskeiðin en þau eru ætluð kennurum sem hug hafa á að ná betur til nemenda sinna og minnka um leið bilið á milli árangurs drengja og stúlkna í skólanum.
Mikill munur á árangri drengja og stúlkna
Í niðurstöðum samræmdra prófa hérlendis sem víða erlendis kemur fram mikill munur á árangri drengja og stúlkna. Þessi munur virðist hafa farið vaxandi og er víða umræðuefni meðal áhugafólks um skólamál. Rannsóknir sýna að drengir og stúlkur hafa ekki aðeins mismunandi hormónaframleiðslu heldur er einnig munur á hvernig heilinn starfar. Kelley King fjallar um hvernig við nýtum okkur þessa þekkingu og kemur með raunhæfar leiðbeiningar til foreldra um hvernig við getum eflt getu bæði drengja og stúlkna til að ná betri árangri í námi.