gladir_krakkar

Fjölgreindirnar á dagskrá í 11. skipti

gladir_krakkar

Þegar farið var að grennslast nánar fyrir um þessi furðudýr og skrítnu mannverur (sjá frétt hér á undan) kom í ljós að í dag er fyrri dagur fjölgreindaleika Salaskóla. Þá er öllum krökkum í skólanum skipt niður í hópa, u.þ.b. 12 krakkar í hóp, eldri sem yngri saman í hóp ásamt tveimur fyrirliðum er eiga að sjá um að allt fari vel fram. Hópurinn fer á milli 40 stöðva þar sem reynir á mismunandi hæfni hópmeðlima og hver og einn í hópnum leggur sitt af mörkum allt eftir hæfileikum sínum og getu. Sem dæmi má nefna að sumir eru betri en aðrir í að greina bragð, að þekkja fána, saga út, sparka stígvéli og hitta bolta í körfu. Þau yngri eru oft betri en þau eldri í einhverju – og öfugt. Á hverri stöð er stöðvarstjóri sem útskýrir í hverju verkefnið felst. Stöðvarstjórinn er ávallt kennari/starfsmaður sem er klæddur í grímubúning eða furðuföt. Þá er málið upplýst sem betur fer og kennararnir voru á sínum stað í morgun en voru bara óþekkjanlegir.

Fjölgreindaleikarnir, í öllu sínu veldi, eru sem sagt haldnir í Salaskóla í dag í 11. skipti, nemendum og starfsfólki til mikillar ánægju. Þar er eitt af aðalmarkmiðunum að hver og einn nemandi fái að njóta sín á sínum eigin forsendum. Leikarnir gengu afar vel í dag og við hlökkum til seinni hluta leikanna á morgun.

Sjá myndir frá morgninum og af skrítnum stöðvarstjórum.

Birt í flokknum Fréttir og merkt .