Í Salaskóla er alltaf heilmikið um að vera og nóvember var sérlega viðburðarríkur mánuður er þetta varðar. Við fáum oft skemmtilegar heimsóknir og krakkarnir bjóða oft til sín gestum til að hlýða á tónlist, söng og atriði á sviði. Hver bekkur í skólanum skipuleggur eina sýningu að vetri þar sem allir nemendurnir taka þátt í sýningunni með einhverjum hætti. Svölurnar voru einmitt á dögunum með glæsilega sýningu fyrir foreldra og aðra bekki í skólanum. Þau sungu, lásu ljóð, fluttu tónlist og settu á svið þjóðsöguna Djáknann á Myrká í nútímalegum búningi með tilheyrandi leikhljóðum og tónlist. Flott vinna hjá krökkunum sem þau fengu mikið lof í lófa fyrir. Fleiri bekkir eru að undirbúa samsvarandi sýningu.
Hilmar Örn Óskarsson, ungur og upprennandi rithöfundur, kom við hjá okkur í síðastliðinni viku og las upp úr bók sinni „Kamilla vindmylla – og bullorðna fólkið“ fyrir nemendur í 3. og 4. bekk. Þetta er fyrsta barnabók Hilmars og krakkarnir kunnu aldeilis vel að meta innihaldið og skemmtu sér hið besta. Í lokin spurðu þau Hilmar nokkurra spurninga t.d. hvernig hann fengi hugmyndir þegar hann væri að skrifa. Skemmtileg og gefandi heimsókn. Myndir.
Nemendur í 1. og 2. bekk buðu til sín foreldrum um miðjan nóvember til að hlýða á samsöng í salnum. En hún Heiða tónmenntakennari er dugleg að láta krakkana syngja saman – oft með tilheyrandi látbragði. Foreldrarnir flykktust í skólann til að hlusta á krakkana sína syngja og fengu meira að segja að taka undir sönginn á köflum.
Síðast en ekki síst var skemmtileg uppákoma á degi íslenkrar tungu, 16. nóvember, en þá kepptu teistur og mávar til úrslita í lestrarkeppninni LESUM MEIRA. Lestrarkeppnin er búin að vera í gangi síðan í haust á miðstiginu þar sem hver og einn hefur keppst við að lesa ákveðnar bækur sem gefnar voru upp fyrir keppnina. Bekkjarlið kepptu síðan sín á milli í október og nóvember sem endaði með að lið mávanna stóð uppi sem sigurvegari. Krakkar í öllu bekkjum á miðstigi lögðu á sig mikla vinnu við lesturinn og stóðu sig öll afar vel. Skemmtileg hvatning fyir krakka á miðstigi sem vonandi verður árlegur viðburður hjá okkur í Salaskóla. Hér má sjá myndir frá lestrarkeppninni.