Klukkan hálftíu í morgun örkuðu kátir fyrstubekkingar Salaskóla af stað að heimsækja útistofuna okkar, Rjúpnalund. Þar sameinuðust grunnskóla- og leikskólabörn og áttu góða jólastund saman. Veðrið var okkur í hag, frekar hlýtt og milt. Þegar við nálguðumst útikennslustofuna fundum við ilm frá varðeldi og þegar við komum nær blasti við okkur þessi fallegi bjarmi frá mörgum luktum sem var búið að hengja upp í trén. Kennarar tóku á móti okkar og sögðu okkur frá ljóðinu hans Jóhannesar úr Kötlum, Jólasveinavísum. Það var búið að hengja upp spjöld með myndum og texta um jólasveinana þrettán. Tákn voru hjá hverju spjaldi sem hægt var að skoða, snerta eða smakka svo sem stafur, askur og skyr. Nemendur sátu í hring í kringum varðeldinn og var þetta mjög hátíðlega jólastund sem endaði með kakói og jólasöng, það ríkti mikil gleði og kátína. Börnin voru sammála um að þetta hefði verið frábær jólastund.
Kveðja
1.bekkur Salaskóla