Endurskoðun skilmála vegna afnota af spjaldtölvu 2024

Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu hafa verið uppfærðir. Nálgast má skilmálana í heild sinni hér: https://spjaldtolvur.kopavogur.is/skilmalar/

Eftirfarandi breytingar voru gerðar:

2. grein breytist ekki efnislega en síðasta setningin hefur verið færð framar.

3. grein breytist þar sem orðið “Lightspeed” hefur verið tekið út og í staðinn sett orðið “umsýslukerfi”.

4. grein breytist. Var áður “Til þess að hægt sé að nota spjaldtölvuna er nauðsynlegt að nemandi eigi Apple-auðkenni (Apple ID) og sér Kópavogsbær um að stofna þann aðgang, auk netfangs sem tengist Apple-auðkenninu. Umsjónarkennara og foreldrum/forráðamönnum eru afhentar aðgangsupplýsingar (netfang og lykilorð) Apple-auðkennis. Auk þess hefur tæknistjóri og deildarstjórar í upplýsingatækni í hverjum skóla aðgang að innskráningarupplýsingum nemenda”.

en verður nú:

“Kópavogsbær sér um að stofna þá aðganga sem nemandi þarf til að nota í námi. Tæknistjóri og deildarstjórar í upplýsingatækni í hverjum skóla hafa aðgang að innskráningarupplýsingum nemenda”.

6. grein Fyrsta setning hefur verið umorðuð: “Nemanda í 5.-10. bekk er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi. Nemandi skal þá hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna”

en verður nú:
“Nemanda er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi í 5. -10. bekk en skal hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna. Nemandi ber ábyrgð á sínu hleðslutæki og snúru og er mælst til þess að það sé geymt heima”.

Grein 10. Breytist. Var áður “Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (öpp) sem ætluð eru til náms vinnu nemenda. Nemendur í 1. – 7. bekk hafa ekki aðgang að App Store. Öll öpp í spjaldtölvum nemenda eru skráð í Lightspeed sem er miðlægt kerfi í umsjón deildarstjóra skólans í upplýsingatækni”

en verður nú:

“ Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (öpp) sem ætlaður er til náms. Nemendur hafa ekki aðgang að App Store. Öllum öppum í spjaldtölvum nemenda er dreift með umsýslukerfi bæjarins sem er miðlægt kerfi í umsjón UT deildar. Þegar spjaldtölvunni er skilað í lok skólaárs ber nemandi ábyrgð á að vista persónuleg gögn annars staðar, þar sem spjaldtölvan getur verið uppfærð og enduruppsett áður en hún er afhent á næsta skólaári og eyðast þá öll gögn af spjaldtölvunni”.

Í grein 11 bætist við “Nemendur og foreldrar/forsjáraðilar bera ekki fjárhagslega ábyrgð þótt tækið glatist, skemmist eða verði með öðrum hætti ónothæft. Ef um vísvitandi skemmdarverk, verulega vanrækslu er að ræða eða ef námstæki er ekki skilað ber foreldrum/forsjáraðilum að bæta skólanum tækið fyrir hönd nemanda”.

Að síðustu breytist 14. grein sem hér segir: “Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta breytt aðgangi sínum á Apple og iCloud til að varðveita persónuleg gögn og gert hann að persónulegum aðgangi til að varðveita þau. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni”.

en verður nú:

“Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir einn mánuð frá útskrift og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta flutt persónuleg gögn af skólaaðgangi sínum yfir á persónulegan aðgang. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni.

Birt í flokknum Fréttir.