
Matseðill fyrir september og október er nú kominn á vefinn. Skoðið nánar hér.
Category Archives: Fréttir
Kisa í heimsókn

Himbrimar og lómar fengu skemmtilega heimsókn inn í skólastofuna sína í gær þegar lítill kettlingur skaust inn um gluggann. Eins og nærri má geta var ekki kennsluhæft fyrstu mínúturnar en svo komst ró á mannskapinn og kisu litlu virtist líka lífið vel í fanginu á krökkunum eftir að hafa fengið duglega að borða. Kisa verður eitthvað áfram í vörslu á vegum skólans og ef einhver hefur upplýsingar um hvaðan þessi litla kisulóra kemur getur sá hinn sami haft samband við Jóhönnu P. kennara eða skrifstofuna.
Salaskóli í keppni þeirra bestu á Norðurlöndum.
Helgina 26 til 28 ágúst fór fram Norðurlandamót grunnskóla í Skák í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Til leiks mættu lið frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi ásamt tveimur efstu liðunum frá Íslandsmeistaramótinu sem var haldið í apríl sl. Færeyingar mættu ekki til leiks og sendi Ísland því tvö lið, Lið 1 frá Íslandi frá Rimaskóla og ríkjandi Íslandsmeistarar og Lið 2 frá Íslandi frá Salaskóla, sem vann silfur á síðasta Íslandsmóti. Fyrirfram leit styrkur okkar manna skv. skráðum skákstigum þannig út að við værum með minnst reynda liðið ,enda aldur okkar keppenda frá 10 ára upp í 16 ára. Við kepptum 5 viðureignir oftast nær við sveitir með skráðan styrk langt fyrir ofan okkar keppendur. Salaskóli sigraði tvö af þessum liðum eða Danmerkurmeistarana og finnska liðið og lentum við í 5 sæti aðeins 1 vinning frá silfurliðinu.
Bestum árangri okkar nemenda náði Hildur Berglind Jóhannsdóttir með 75% vinningshlutfall, en hún er aðeins í 7. bekk og síðan yngsti keppandinn á mótinu eða Hilmir Freyr Heimisson sem er nýorðinn 10 ára með 62,5% vinningshlutfall. Sjá nánar hér um úrslit í einstaka skákum.
Á síðustu árum hefur Salaskóli unnið glæsta sigra á Norðurlandamótum.
2009 Norðurlandameistarar.
2010 Silfur á Norðurlandamóti
2011 5 sæti á Norðurlandamótii
Við óskum skákliði Salaskóla innilega til hamingju með glæsilegan árangur – en meðlimir liðsins eru taldir upp hér neðar á síðunni.

Gestir frá Noregi
Í morgun komu góðir gestir fra Noregi í heimsókn hingað í skólann. Hér voru á ferð 21 nemandi frá Álasundi ásamt nokkrum kennurum og foreldrum. Þessi hópur hitti tíundubekkingana okkar á sal, fræddi þá um skólann sinn og heimabæ. Einnig spiluðu þau undurfagra tónlist fyrir okkur m.a. eftir norska tónskáldið Edward Grieg. Gestgjafarnir löbbuðu síðan með gestunum um skólann og sýndu þeim aðstöðuna og nokkrir náðu að kíkja á íþróttahúsið líka. Í kvöld bjóða Norðmennirnir svo 10. bekk í grill hérna í skólanum og verður félagsmiðstöðin opin svo hópurinn fái tækifæri til þess að kynnast enn betur.
Skáklið Salaskóla á Norðurlandamóti

Skáklið Salaskóla keppir á Norðurlandamóti grunnskóla í skák 26. – 28. ágúst næstkomandi. Keppt er í húsi Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12. Í liði Salaskóla eru Guðmundur Kristinn Lee MR, Birkir Karl Sigurðsson 10b., Hilmir Freyr Heimisson 5b., Jón Smári Ólafsson 7b., Hildur Berglind Jóhannsdóttir 7b. og Eyþór Trausti Jóhannsson 9b. Áhorfendur eru velkomnir. Sjá nánar hér
Gaman á skólasafni

Þessa dagana eru fyrstubekkingar smátt og smátt að læra að rata um skólann sinn. Í dag komu þeir á skólasafnið í fyrsta sinn með umsjónarkennaranum sínum og völdu sér bók til að lesa. Þeir lærðu hvernig bók er fengin að láni og hvert á að skila henni að lestri loknum. Þetta er heilmikið að muna en þau voru ekki bangin og býsna fljót að tileinka sér þetta allt. Síðan gengu þau aftur niður í stofuna sína með bók undir hönd. Næst þegar þau þurfa að fá bók lánaða geta þau áreiðanlega ratað „alveg ein“ á safnið.
Skólaárið 2011-2012

Nemendur streyma í skólann
Nemendur fóru að sreyma í skólann í morgun til þess að hitta umsjónarkennarann sinn, skólafélagana og fá stundaskrána í hendur. Krakkarnir voru hressir og glaðlegir að sjá eftir gott sumarfrí, eftirvæntingin skein úr andlitunum en það bar á feimni hjá einstaka nemanda eins og ofureðlilegt er. Foreldrar koma gjarnan með krökkunum í skólann fyrsta daginn. Skólinn hefst svo samkvæmt stundaskrá á morgun, þriðjudag, en fyrstubekkingar mæta ekki í skólann fyrr en á miðvikudaginn. Myndir.


Starfsfólk skólans á námskeiði

Allt starfsfólk Salaskóla sótti námskeið í dag til að læra meira um uppbyggingarstefnuna Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga (Restitution – Self Discipline). En eins og nafnið bendir til er það aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Unnið hefur verið eftir þessum aðferðum í Salaskóla að undanförnu. Fyrirlesari var Cindy Lévesque sem kemur frá Kanada og hefur mikla reynslu af að nýta þessar aðferðir í skólastarfi. Námskeiðið þótti mjög gagnlegt og þangað er hægt að sækja mikið af góðum hugmyndum fyrir væntanlegt vetrarstarf.


















