Bréf frá skólastjóra vegna matar í mötuneyti Salaskóla

Í síðustu viku var þáttur á Stöð 2 þar sem fjallað er um offitu Íslendinga. Þar var minnst á mötuneyti Salaskóla en umsjónarmaður þáttarins hafði komið hér einn daginn og fengið sýnishorn af mat sem hún fór með í greiningu í Matís. Þennan dag var grísasnitsel í matinn og það er skemmst frá því að það kom á daginn að sneiðin innihélt 240 hitaeiningar (kcal) í hundrað grömmum, þar af 16-17% kolvetni og 11% fitu. Til samanburðar inniheldur hreint kjöt á milli 110-140 hitaeiningar í hundrað grömmum, þar af ekkert kolvetni og 3-6% af fitu. Þess ber að geta að utan um snitselið er brauðrasp sem inniheldur kolvetni. Í framhaldi af þessu hefur svo spunnist umræða um hollustu máltíða í skólamötuneytum og ályktanir dregnar út frá blessuðu snitselinu. Að því tilefni tel ég rétt að upplýsa ykkur um eftirfarandi.


1. Alls voru framreiddar 159 máltíðir frá á skólaárinu,
en við höfðum engan kokk í eldhúsinu frá skólabyrjun til
15. september.
2. Af þessum 159 máltíðum voru 64 fiskmáltíðir, 47 kjötmáltíðir,
spónamatur var 33 sinnum, pastaréttir 9 sinnum og annað
(grænmetisbuff,  vorrúllur, pizza og hlaðborð) 6 sinnum.
3. Af 64 fiskmáltíðum voru 56 eldaðar úr spriklandi nýjum fiski
í eldhúsinu okkar. 8 máltíðir voru fiskibollur. Allt annað var eldað í
gufuofninum okkar að undanskildum plokkfiski (5 máltíðum)
sem var lagaður í pottinum.
4. Af 47 kjötmáltíðum voru 13 forunnar, þ.e. snitselið fræga
(4 máltíðir), pylsur og bjúgu (5 máltíðir), kjötbollur (4 máltíðir).
5. Spónamatur, sem voru 33 máltíðir, skiptist í mjólkurgrauta
(10 máltíðir), súpur sem sumar voru matarmiklar kjötsúpur
(18 sinnum), skyr og jógúrt (5 máltíðir).
6. 128 máltíðir voru því eldaðar frá grunni í eldhúsinu en 31 komu
að einhverju leyti forunnin til okkar, en fullkláruð hér. Af þeim voru
bollur 12 máltíðir en við getum ekki steikt þær í þeim tækjum
sem við höfum. Kaupum þær því þannig.

Sjá nánar hér.


Ekki ætla ég að mæla snitselinu bót en það er alveg ljóst að hér er ekki um dæmigerða máltíð í mötuneyti Salaskóla, aðeins í boði 4 sinnum yfir veturinn. Þess ber að geta að þáttargerðarmaðurinn mætti hér í skólann með tökumann eftir að matartíma var lokið. Allur maturinn var búinn að undanskildum einhverjum tveimur sneiðum sem ég bauð henni að fá.

Það voru sem sagt leifarnar eftir að 500 manns höfðu tekið til matar síns. Sennilega ekki bestu bitarnir en ég vakti athygli hennar á því að þetta væri lang síðustu bitarnir og líklega ekki dæmigerðir. Ekki var það tekið fram í þessari umfjöllun.

Þetta eru fremur óvísindaleg vinnubrögð hjá þáttastjórnandanum og óneitanlega stórar ályktanir sem dregnar eru af þessu snitseli sem hún vissi mæta vel að væri mjög sjaldan í boði og aukinheldur allra síðustu bitarnir. Það er ómaklegt að vega að fagfólki í mötuneytum með þessum hætti. Í Salaskóla er reynt að hafa matinn fjölbreyttan „heimilismat“ og við erum sífellt að vinna meira hér frá grunni. Þess ber að geta að daglega eru reiddir hér fram 500 skammtar, starfsmenn mötuneytisins eru 2,5 og hver skammtur er seldur á 395 kr.

Að lokum langar mig að geta þess nemendur Salaskóla eru einstaklega hraustir og vel á sig komnir. Í rannsóknum hefur komið fram að íþróttaþátttaka þeirra er einhver sú mesta á landinu og svo er meira um það að þeir borði morgunmat heima hjá sér áður en þeir fara í skólann en í flestum öðrum skólum.

Hvað sem öllu líður þá munum við halda áfram að bæta mötuneytið okkar. Við fögnum góðu eftirliti en viljum sanngjarna umfjöllun.

Birt í flokknum Fréttir.