Eineltisáætlun

Eineltisáætlun Salaskóla

Vinátta, virðing og samstarf eru lykilorð Salaskóla. Í öllum bekkjum er unnið eftir forvarnaráætlun skólans þar sem áhersla er á að byggja upp jákvæð samskipti og góða sjálfsmynd. Skólinn leggur ríka áherslu á að traust og virðing ríki innan skólans og nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum. Skólayfirvöld, starfsfólk, nemendur, skólaráð og foreldrafélag vinna markvisst með fjölbreyttum áherslum gegn einelti í skólanum.

Hvað er einelti?

Salaskóli styðst við eftirfarandi skilgreiningu á einelti, en túlkar hana rúmt og vinnur frekar fleiri mál en færri sem eineltismál:

Einstaklingur er lagður í einelti ef hann/hún/hán verður fyrir endurteknu ofbeldi, líkamlegu eða andlegu af völdum eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil. Einelti hefur þær afleiðingar að þolanda líður illa og finnur fyrir varnarleysi.

Dæmi um líkamlegt ofbeldi: sparka, slá, kýla, hrinda.

Dæmi um andlegt ofbeldi: uppnefni, baktal, útilokun, hunsun.

Tilkynning um einelti

Salaskóli hvetur nemendur sem telja sig eða aðra nemendur verða fyrir einelti að segja frá því. Þeir geta leitað til kennara, námsráðgjafa, félagsráðgjafa, skólastjórnenda og/eða foreldra/forráðamanna. Mikilvægt er að bíða ekki með að tilkynna.

Viðbrögð:

  • Þegar grunur vaknar um einelti eða skólanum berst tilkynning um einelti er málið kannað af eineltisteymi skólans og teymið aflar nauðsynlegra upplýsinga.
  • Málið er tekið fyrir í nemendaverndarráði og skráð þar.
  • Viðtöl eru tekin við gerendur og foreldra/forráðamenn þeirra en einnig þolanda og foreldra.
  • Málinu fylgt eftir þar til tryggt þykir að því sé lokið.

Verklagsreglur eineltismála:

  • Tilkynning berst skólanum: Eineltisteymið virkjað, umsjónarkennurum gerð grein fyrir málinu og málið er tekið fyrir í nemendaverndarráði.
  • Upplýsingum aflað: Eineltisteymið aðstoðar umsjónarkennara við upplýsingaöflun og rætt er við starfsfólk skóla sem kemur að nemendunum. Rætt við foreldra/forráðamenn þolanda og geranda og aðra samnemendur sem tengjast málinu. Fylgst er vel með í frímínútum og kennslustundum. Umsjónarkennarar leggja fyrir tengslakönnun í bekknum, ef þörf er á, eða skoða niðurstöður fyrri kannana.
  • Aðgerðir: Eftir upplýsingaöflun er tekin ákvörðun um næstu skref. Ef upplýsingaöflun leiðir í ljós að um einelti sé að ræða eru viðeigandi skref tekin. Eineltisteymið, í samstarfi við umsjónarkennara og foreldra/forráðamenn, ákveða hvernig brugðist verður við. Viðtöl eru tekin við þolanda og foreldra/forráðamenn, það sama á við um geranda.
  • Eftirfylgd: Málinu er fylgt eftir og umsjónarkennarar/eineltisteymið eru í reglulegu sambandi við foreldra/forráðamenn bæði þolanda og geranda og upplýsa þá um það hvernig gengur. Málinu telst lokið þegar þolandi og foreldrar/forráðamenn upplifa það sem svo.

Ath. Að aðgerðaráætlunin er aðeins til viðmiðunar. Málin eru misjöfn og mikilvægt að skoða hvert mál fyrir sig og bregðast við með viðeigandi hætti.

Meðlimir eineltisteymis:

  • Deildarstjóri stoðþjónustu
  • Umsjónarkennari á yngsta stigi
  • Deildarstjóri verkefna á miðstigi
  • Námsráðgjafi
  • Félagsráðgjafi