Útivist

Nemendur í 1. – 7. bekk fara út í kennsluhléum tvisvar til þrisvar á dag. Ekki eru allir úti á sama tíma og er það gert til að draga úr fjölda nemenda á leikvellinum og nýta leiktæki og leikvelli betur. Farið er út í öllum veðrum, nema þeim allra verstu. Nemendur þurfa því að koma klæddir eftir veðri á hverjum einasta degi. Útivistin er hugsuð sem frjáls tími fyrir nemendur, þar sem þeim gefst tækifæri til að leika sér saman, fá holla hreyfingu og fylla lungun af súrefni.

Venjulega gengur allt snurðulaust og nemendur leika sér saman í sátt og samlyndi. Einstaka sinnum slettist lítillega upp á vinskap eins og alltaf er þar sem margir koma saman.  Í langflestum tilfellum leysast mál strax í miklu bróðerni, en fyrir kemur að grípa þurfi inn í. Eftir útivist koma iðulega allir sælir og glaðir inn, tilbúnir til að takast á við þau verkefni sem fyrir liggja. Starfsmenn sem eru í gæslu hverju sinni skipta sér yfirleitt ekki af leikjum barnanna, en grípa að sjálfsögðu inn í þegar þarf og eru til taks fyrir krakkana. Fjöldi starfsmanna í gæslu er mismunandi, en þeir eru frá 5-8 eftir fjölda þeirra nemenda sem eru úti. Auk þess eru fjórir nemendur úr 10. bekk sem sinna gæslu og aðstoð við nemendur í morgunfrímínútum. Þeir sem eru í gæslu fara um skólalóðina og fylgjast með því sem er að gerast.  Þeir eru klæddir í áberandi vesti þannig að auðvelt er fyrir krakkana að sjá hvar þá er að finna.