Uppeldi til ábyrgðar

Unnið hefur verið með starfsaðferðir uppeldis til ábyrgðar í Salaskóla frá árinu 2007. Meginatriðið er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga, sjálfstjórn og ýta undir sjálfstraust.

Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga (Restitution – Self Discipline) er eins og nafnið bendir til, aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Fundin er leið til að láta skólastarf ganga betur með þá vitneskju að leiðarljósi að hver og einn geti aðeins stjórnað sjálfum sér og ekki öðrum.

Nemendur fá tækifæri og þjálfun í að líta inn á við, skoða eigið gildismat og láta það stýra framkomu sinni og hegðun allri. Áherslan verður á virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu.Til að tryggja öryggi eru skýr mörk skilgreind um óásættanlega hegðun. Viðurlög eru ákveðin með víðtæku samþykki kennara og foreldra. Enginn ætti að vera í vafa um viðbrögð skólans þegar skýr þolmörk eru rofin. Aðferðin miðar að því að bæta úr því sem fer aflaga og læra þannig af mistökum sínum.

Salaskóli er að innleiða stefnuna. Það miðar að því að efla samfélag skólans, efla einstaklingana til dáða, draga úr (tog)streitu og læra að eyða ósætti.Það byggist á virðingu og öðrum sammannlegum gildum sem eru skilyrði fyrir eindrægni og samstöðu. Kennarar og starfsmenn öðlast færni og þekkingu til að skapa í skólanum óþvingað andrúmsloft, vinna krefjandi starf af öryggi og virðingu og kenna börnunum að hegða sér af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum – vera bæði skapandi og ábyrg.

Uppbyggingaraðferðin hjálpar til við:- að skilja eigin hegðun, – geta jafnað ágreining og vaxa af því, – leiðrétta eigin mistök, – sættast við aðra og – komast í jafnvægi. Að hafa stjórn á sjálfum sér eflir sjálfstraust, bætir samband við aðra og eykur afköst í námi.

Í skólum þar sem uppbyggingaraðferðin hefur verið reynd, hefur agabrotum fækkað, mæting batnað, einkunnir hækkað,og ánægja með skólann vaxið hjá nemendum, kennurum og foreldrum. Höfundur uppbyggingaraðferðarinnar er víðfrægur höfundur og fyrirlesari, Diane Gossen frá Kanada og byggir hún aðferðina einkum á:

1) Verkum og reynslu William Glasser (Reality Therapy og Quality School)

2) Vísindakenningu William Powers um sjálfstjórn lífvera

3) Nýjustu rannsóknum á heilastarfsemi mannsins.

Nokkrir skólar á Íslandi hafa tekið stefnuna upp og fjölmargir eru að innleiða hana.

 

Hér að neðan getur að líta þarfahringinn – grundvallarþarfirnar. Hjálpar okkur að skilja betur þarfir okkar og hvernig hægt  er að fullnægja þeim.