Heimanám

Heimanámsstefna Salaskóla

Foreldrar hafa áhuga á að fylgjast með gengi sinna barna í náminu og eins og allir vita getur það skipt sköpum. Einfaldasta leiðin fyrir foreldra til að fylgjast með náminu er að setjast daglega niður með barni sínu og aðstoða það við heimanámið. Hlusta á það lesa, hvetja til vandvirkni við ritun, hjálpa því að fletta upp í orðabók, hlýða yfir margföldunartöfluna o.s.frv. Gamla fyrirkomulagið, að börnin sitji við eldhúsborðið og vinni heimaverkefni sín meðan foreldrar hræra í pottunum er gulls ígildi. Þá geta foreldrar einnig setið með börnum sínum meðan þau vinna. Maður þarf ekki endilega að kunna námsefnið til að aðstoða við heimanámið, það er hvatningin og áhuginn sem mestu máli skiptir. Ef barnið lendir í vandræðum og enginn á heimilinu áttar sig á hvað á að gera, þá bara skrifa athugasemd til kennarans.

Markmið með heimanámi nemenda í Salaskóla er að barnið læri að sýna sjálfsaga, læri að vinna upp á eigin spýtur, þjálfun, undirbúningur undir kennslustundir og ekki síst að skapa jákvæð samskipti milli foreldra og barna um það sem börnin eru að gera á daginn. Góð og jákvæð samskipti foreldra og barna á meðan á heimanáminu stendur geta haft mikil áhrif á námsárangur. Ef foreldrar eiga í vandræðum með að fá börn sín til að læra heima biðjum við þá um að hafa samband við okkur og í sameiningu hjálpumst við að við að leysa málið farsællega.

Heimanám – Yngsta stig

Heimanám vikunnar er sent heim á föstudegi og skilað til baka næsta föstudag. Það er í sérstakri möppu og því er auðvelt að halda utan um það.

Megináherslan er á heimalestur. Nemendur eiga að þjálfa sig heima í lestri á hverjum degi og foreldrar fylgjast með og skrá niður það sem lesið var og kvitta fyrir.

Auk heimalesturs er í möppunni eitt lítið verkefni, kynning fyrir foreldra á því sem búið er að vinna með í skólanum. Einnig getur verið verkefni sem er ætlað til þjálfunar t.d. í skrift eða stærðfræði.

Nemendur í grunnskóla eru í fullri vinnu í skólanum. Allt heimanám fyrir utan heimalestur er aukavinna og i raun sýnishorn á vinnu nemenda í skólanum.

Ef fólk óskar eftir meiru bendum við á gagnvirkt námsefni á Salaskólavefnum.

Heimanám og vikubréf birtast vikulega inni á mentor.

Heimanám – Miðstig

Markmið með heimanáminu eru undirbúningur undir kennslustundir, æfing og að foreldrar geti fylgst með námi barna sinna.

Miðað er við daglegt heimanám á virkum dögum og sé að hámarki 30-40 mínútur á dag.

Lestur er hluti af daglegu heimanámi. Bæði getur verið um að ræða lestur í lestrarbókum og öðrum námsbókum og þá sem undirbúningur fyrir kennslustundir. Auk lesturs eru verkefni á lausum blöðum eða í vinnubókum sem ætluð eru til þjálfunar í t.d. skrift eða stærðfræði.

Nemendur í grunnskóla eru í fullri vinnu í skólanum. Það er því mikilvægt að íþyngja þeim ekki um of með aukavinnu í náminu heima.

Ef fólk óskar eftir meiri heimavinnu en skólinn lætur nemendur hafa bendum við á gagnvirkt námsefni á Salaskólavefnum.

Heimanám og vikubréf birtast vikulega inni á mentor.

Heimanám – Unglingastig

Markmið með heimanámi á unglingastigi er að nemendur vinna frekar með þá námsþætti sem verið er að vinna með í skólanum og fái þannig aukið tækifæri til að byggja upp og dýpka þekkingu sína og hæfni.

Miðað er við daglegt heimanám á virkum dögum. Kennarar leitast við að stilla heimanámi í hóf á hverjum degi enda er skóladagur unglinga langur. Mikilvægt er að íþyngja nemendum ekki um of með heimavinnu og taka tillit til ólíkra þarfa nemenda.

Ef fólk óskar eftir meiri heimavinnu en skólinn lætur nemendur hafa bendum við á gagnvirkt námsefni á Salaskólavefnum.

Kennarar setja upplýsingar um heimanám hvers dags á mentor.