lesummeira2

Lestrarkeppni á miðstigi

lesummeira2Í dag hófst formlegur undirbúningur fyrir lestrarkeppnina LESUM MEIRA sem nemendur á miðstigi taka þátt í síðar í vetur en þá munu bekkjardeildir miðstigs keppa sín á milli. Keppnin er samvinna skólasafns og kennara miðstigs en sex skólar í Kópavogi standa að slíkri keppni í ár innan síns skóla. Markmiðið með þessu er að nemendur verði víðlesnari, auki við orðaforða sinn og áhugi á bókalestri eflist. 
Krakkarnir hafa nú fengið inn í skólastofuna sína bókakassa með þeim bókum sem gefnar eru upp fyrir keppnina og eiga að lesa sem mest fram í aðra viku í október. Þá byrjar lestrarkeppni á milli bekkja þar sem tveir og tveir bekkir keppa sín á milli er endar með því að einn bekkur stendur uppi sem sigurvegari. Hver bekkur þarf að velja sér fimm manna lið (3 aðalmenn og 2 varamenn) en hinir í bekknum eru svokallaðir bakhjarlar sem hægt er að leita til í keppninni.

Fyrirkomulag keppninnar minnir á ÚTSVARIÐ á RÚV fyrir þá sem þekkja það en um er að ræða hraða-, vísbendinga-, ágiskunar- og valflokkaspurningar. Ekki er einungis spurt úr bókum á bókalista heldur er einnig gott að vera vel að sér í bókmenntaheiminum og hafa lesið í gegnum tíðina, vita um íslenska höfunda, bókatitla og fleira. Keppnin fer vel af stað því það var mikill hugur í mönnum við lesturinn í morgun. Vonandi halda krakkarnir áfram að vera svo áhugasamir og kappsfullir. Þeir sem eiga erfitt með lestur geta nýtt sér hljóðbækur. Hér er hægt að lesa nánar um keppnina og sjá bókalistann sem unnið er út frá. 

Birt í flokknum Fréttir og merkt .