Skíðaferð unglingadeildar 18. mars

Ef veður leyfir verður mánudagurinn 18. mars útivistar- og skíðadagur hjá 8. – 10. bekk. Við munum leggja af stað í Bláfjöll klukkan 9:15 og verður skíðað til klukkan 14:00 og lagt af stað heim klukkan 14:30. Þar sem þetta er ekki bara skíðaferð þá mega nemendur sem ekki vilja fara á skíði eða bretti koma með sleða og spil, getað haft það kósý inn í skála milli þess sem þau leika sér í snjónum. Þeir sem eru nýgræðingar á skíðum fá leiðsögn frá okkar frábæru skíðakennurum.

Það getur verið að þetta rekist í tómstundir hjá einhverjum nemendum en við bendum á að skíðaferð er bara einu sinni á ári og ógleymanleg upplifun fyrir krakkana.

Þeir sem vilja leigja skíðabúnað geta gert það. Þeir þurfa að vita hæð sína, þyngd og skóstærð. Leiga á skíðum og brettum er 2.340 kr. Lyftukort kostar 890 kr. Nemendur þurfa að passa vel upp á lyftukortin og skila þeim í lok dags.

Það er mikilvægt að klæða sig vel og hafa skíða- eða reiðhjólahjálm með.

Nemendur koma með nesti sjálfir þennan dag og við mælum auðvitað með hollum bita. Munið einnig eftir drykkjum.

Við munum kanna veður og færð í Bláfjöllum snemma á mánudagsmorgun og láta vita ef það er lokað svo fljótt sem það liggur fyrir. Ef það verður lokað þá mæta nemendur í skólann eins og venjulega.

Skíðaferð 5. – 7. bekkja

Ef veður leyfir verður föstudagurinn 15. mars útivistar- og skíðadagur hjá 5. – 7. bekk. Við munum leggja af stað í Bláfjöll klukkan 9:15 og verður skíðað til klukkan 14:00 og lagt af stað heim klukkan 14:30. Þar sem þetta er ekki bara skíðaferð þá mega nemendur sem ekki vilja fara á skíði eða bretti koma með sleða og spil, getað haft það kósý inn í skála milli þess sem þau leika sér í snjónum. Þeir sem eru nýgræðingar á skíðum fá leiðsögn frá okkar frábæru skíðakennurum.

Það getur verið að þetta rekist í tómstundir hjá einhverjum nemendum en við bendum á að skíðaferð er bara einu sinni á ári og ógleymanleg upplifun fyrir krakkana.

Þeir sem vilja leigja skíðabúnað geta gert það. Þeir þurfa að vita hæð sína, þyngd og skóstærð. Leiga á skíðum og brettum er 2.340 kr. Lyftukort kostar 890 kr. Nemendur þurfa að passa vel upp á lyftukortin og skila þeim í lok dags.

Það er mikilvægt að klæða sig vel og hafa skíða- eða reiðhjólahjálm með.

Nemendur koma með nesti sjálfir þennan dag og við mælum auðvitað með hollum bita. Munið einnig eftir drykkjum.

Við munum kanna veður og færð í Bláfjöllum snemma á föstudagsmorgun og láta vita ef það er lokað svo fljótt sem það liggur fyrir. Ef það verður lokað þá mæta nemendur í skólann eins og venjulega.

10. bekkingar gáfu brunn og 5 þúsund vatnshreinsitöflur

Rétt fyrir jól unnu nemendur í 10. bekk í Salaskóla verkefni þar sem þeir bjuggu til allskyns áhugaverða hluti ýmiskonar afgöngum. Þeir seldu þá svo á opnu húsi og voru einnig með kaffisölu og ýmsa leiki sem þurfti að borga lítilsháttar fyrir að taka þátt í. Þau söfnuðu 60 þúsund krónum. Þau ákváðu svo að færa UNICEF þennan pening og komu fulltrúar þeirra í heimsókn til þeirra og tóku við framlaginu. Þeir sögðu þennan pening fara í einn brunn og 5 þúsund vatnshreinsitöflur. „Með vatnsdælu frá ykkur fær heilt samfélag aðgang að hreinu vatni. Börnum gefst meiri tími til skólagöngu, heimanáms- og þess að fá að vera börn og leika sér,“ sögðu fulltrúar UNICEF við þetta tækifæri. Það er aldeilis hægt að gera góða hluti með lítilli fyrirhöfn. Glæsilegt hjá 10. bekkingum hér í Salaskóla.

Skipulagsdagur 19. mars, dægradvöl lokuð

Þann 19. mars er skipulagsdagur í Salaskóla og við vekjum sérstaka athygli á því að dægradvölin er lokuð þann dag. Það eru því engir nemendur í skólanum. Kennarar munu undirbúa og skipuleggja lokatörn skólaársins og starfsfólk dægradvalar undirbýr vorstarfið og býr til ýmis skemmtileg verkefni.

Masmánuður í Salaskóla

Í mars ætlum við að hafa „masmánuð“ í unglingadeildinni í Salaskóla. Þetta er samstarfsverkefni nemenda, starfsmanna og foreldra um snjalltækjalaus kennsluhlé þennan mánuð og nota tímann í að leika saman, spila saman og masa saman. Með þessu viljum við stíga út fyrir boxið og gera eitthvað nýtt og spennandi í samskiptum unglinganna í skólanum.
Við ætlum að kaupa bolta, spil, snúsnú-bönd og annað sem að gagni kemur sérstaklega fyrir unglingadeildina, draga fram borðtennisborðin og opna inn í salinn og spila þar tónlist í kennsluhléum. Svo er náttúrlega bara hægt að masa saman og slappa af. Krakkarnir geta þá valið hvað þeir gera sér til afþreyingar.
Þetta er spennandi verkefni og verður gaman að sjá hvernig til tekst og hvaða áhrif það hefur á krakkana.
Við hvetjum krakkana til dáða í þessu dásamlega átaki.

Erlendir gestir

Þessa viku hafa þau Marcus frá Svíþjóð og Renata frá Portúgal verið hjá okkur í Salaskóla að kynna sér skólastarfið. Þau starfa við skólastjórnun í sínum skólum. Þau hafa fylgst með kennslu og skólastarfinu almennt lært ýmislegt sem þau ætla að taka með sér heim, en einnig hafa þau miðlað mörgu góðu til okkar. Það er gott að fá gesti og sannast þá hið fornkveðna að „glöggt er gests augað.“

Upplestrarkeppnin í 7. bekk

Í morgun var síðasti liðurinn í upplestrarkeppninni í 7. bekk haldinn hjá okkur í Salaskóla. 12 keppendur lásu upp fyrir fullum sal af fólki og satt best að segja stóðu þeir sig ótrúlega vel. Mættu vel undirbúnir og virkilega skemmtu salnum með vönduðum upplestri. Sumir þeirra bættu jafnvel um betur og fluttu frumsamin ljóð sem vöktu mikla hrifningu viðstaddra. Kæmi ekki á óvart að einhverjir þeirra eigi eftir að gera garðinn frægan sem ljóðskáld þegar fram líða stundir.

En dómnefnd varð að velja tvo nemendur og einn til vara sem munu keppa fyrir skólans hönd í Salnum í Kópavogi í upplestrarkeppni grunnskólanna í bænum þann 7. mars nk. Þeir sem völdust til þess voru: Guðjón Daníel og Matthildur og svo Díana Ósk til vara.